Kjarnorkuákvæðið svokallaða fjallar í stuttu máli um að forseti Alþingis eða níu þingmenn geti kallað fram atkvæðagreiðslu um að ljúka umræðu um tiltekið mál. Áskilið er að ekki sé hægt að takmarka hana við minni tíma en þrjár klukkustundir.
Kjarnorkuákvæðið á sér langa sögu en þó er ekki hefð fyrir því að það sé notað á Alþingi.
Aðstæður á þinginu nú eru að nokkru leyti frábrugðnar þeim þegar ákvæðinu hefur verið beitt í gegnum tíðina. Ákvæðið hefur átt sér hliðstæðu í þingskapalögum allt frá 19. öld, en með breytingu sem gerð var á ákvæðinu árið 1936 voru þingforseta færðar auknar heimildir til að takmarka ræðutíma þingmanna. Árið 2007 var einnig gerð breyting á þingsköpum sem leiddi til þess að málþóf varð mun auðveldara en áður.
Fimm tilvik hafa komið upp þar sem ákvæðinu var beitt, en það var árin 1937, 1947, 1949, 1959 og 1989. Árið 1937 var ákvæðinu beitt í umræðu um Síldarverksmiðjur ríkisins, 1947 í umræðu um verðbólguráðstafanir, 1949 um inngöngu í Atlantshafsbandalagið, 1959 um fjármálaráðstafanir og 1989 í umræðu um utanríkismál. Árið 1989 var ákvæðinu beitt þegar þingfundur hafði staðið í rúma 13 tíma og í kjölfarið ákvað forseti þingsins að stöðva umræður. Forseti gætti þess ekki að bera tillögu sína undir atkvæði og baðst í kjölfarið afsökunar.
Ákvæðið er því vandmeðfarið en það sem hefur fælt stjórnarliða frá beitingu þess er sú staðreynd að þeir sjálfir geta lent í stjórnarandstöðu síðar meir. Ef ákvæðinu er beitt eru þó ekki öll vopn slegin úr höndum stjórnarandstöðunnar, hún getur haldið uppteknum hætti og áfram tafið önnur mál með málþófi. dilja@mbl.is