Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Um einn af hverjum hundrað sem starfa á vinnumarkaði lenti í vinnuslysi á síðasta ári sem tilkynnt var til Vinnueftirlitsins. Alls barst Vinnueftirlitinu 2.231 tilkynning um vinnuslys sem áttu sér stað á síðasta ári. Lentu 1.427 karlar í vinnuslysi á árinu og 804 konur.
Fjöldi tilkynntra vinnuslysa stóð nokkurn veginn í stað samanborið við árið á undan en á sama tíma varð lítils háttar fjölgun á vinnumarkaði. Er bent á í nýju yfirliti Vinnueftirlitsins í ársskýrslu stofnunarinnar að vinnuslys, sem hlutfall af fjölda starfandi á hverju ári, virðast vera heldur færri á síðustu tveimur árum en á árunum fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar.
Fleiri banaslys við vinnu urðu hins vegar á síðasta ári samanborið við árin á undan. Fimm létust í banaslysum á árinu 2024, þar af fjórir við mannvirkjagerð. Banaslys við vinnu voru þrjú á árinu 2023 og eitt varð á árinu 2022. „Eingöngu karlar hafa látist í vinnuslysum hér á landi á síðastliðnum fimm árum, þar af voru 11 Íslendingar og 4 með erlent ríkisfang,“ segir í umfjöllun eftirlitsins. Meðaltal áranna 2017-2023 var 2,4 banaslys á ári.
Geti gripið til forvarna
„Hlutfall tilkynntra vinnuslysa af fjölda starfandi hefur haldist nokkuð stöðugt en um 1% starfandi á vinnumarkaði verður árlega fyrir slysum sem eru tilkynnt til Vinnueftirlitsins,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir forstjóri Vinnueftirlitsins.
„Við viljum að sjálfsögðu sjá þessar tölur lægri og ein leið til þess er að hvetja vinnustaði landsins til að leggja áherslu á öryggi og vellíðan starfsfólks í daglegum störfum þess. Við viljum undirstrika tilgang þess að stofnunin er að fjalla um slysatölfræði í ársskýrslu sinni, sem er að auka þekkingu vinnustaða á tíðni og orsökum vinnuslysa í því skyni að þeir geti gripið til viðeigandi forvarna svo fækka megi slysum,“ segir hún.
418 slys í framleiðslugreinum
Flest vinnuslys í fyrra urðu í framleiðslugreinum, svo sem fiskvinnslu, matvælaframleiðslu og ýmsum iðnaði, eða 418 á árinu, nánast jafn mörg og á árinu á undan. Opinber stjórnsýsla kemur næst í röðinni, þar sem tilkynnt var um 386 slys við vinnu í fyrra. Þeim fækkaði þó verulega, eða um rúm 10% á milli ára. Undir þennan flokk falla m.a. löggæsla og almannaöryggi, varnarmál og almannatryggingar.
Athygli vekur þegar orsakir vinnuslysa eru skoðaðar að 12,9% slysa meðal starfsfólks í opinberri stjórnsýslu eru flokkuð undir afleiðingar ofbeldis, árásar eða hótunar. Má því ætla, miðað við fjölda tilkynntra slysa, að um 50 slys við störf í opinberri stjórnsýslu megi rekja til ofbeldis eða árása á síðasta ári. Bent er á í skýrslunni að ofbeldi eða árás sé nokkuð algeng orsök slysa í opinberri stjórnsýslu „en það er ekki algeng orsök í hinum greinunum þar sem fall úr hæð og að missa stjórn á hlut eða verkfæri kemur næst á eftir falli á jafnsléttu“.
Algengari meðal ungra karla
Í opinberri stjórnsýslu verða 40% slysa vegna falls á jafnsléttu en í framleiðslu á það við um 19% slysa. Í opinberri stjórnsýslu eru konur tæplega 57% þeirra sem lentu í tilkynntu vinnuslysi í fyrra en karlar rúmlega 43 prósent. Karlar lenda í meirihluta vinnuslysa í öllum öðrum atvinnugreinum og eru það ungir karlar sem lenda frekar í vinnuslysum en aðrir aldurshópar karla. Konum er hættara við slysum þegar líður á starfsævina.
Tilkynnt var um 266 vinnuslys í mannvirkjagerð og fjölgaði þeim um tæp 8% frá árinu á undan. Ef litið er hins vegar á tíðni vinnuslysa á hverja þúsund starfandi, kemur í ljós að tíðni slysa var hæst í atvinnugrein sem nær yfir vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs o.fl. og jókst slysatíðnin á milli ára umfram fjölgun starfandi.
828 einstaklingar með erlent ríkisfang lentu í vinnuslysum
Hanna Sigríður segir að með birtingu slysatölfræðinnar vilji Vinnueftirlitið meðal annars vekja athygli vinnustaða landsins á að 25% vinnuslysa megi rekja til falls á jafnsléttu, en þar er átt við slys þar sem fólk fellur til dæmis um hluti á gólfi eða rennur til í hálku eða bleytu.
„Á þetta einnig við um þær atvinnugreinar þar sem slysatíðnin er há en þar er fall á jafnsléttu algeng orsök slysa. Má ætla að í mörgum tilfellum mætti koma í veg fyrir slík slys með tiltölulega einföldum hætti án mikils tilkostnaðar. Á það ekki síst við þegar borið er saman við þau óþægindi og jafnvel kostnað sem afleiðingar slíkra slysa kunna að hafa í för með sér, bæði fyrir fólkið sjálft sem lendir í slysunum og vinnustaðina,“ segir hún.
Innflytjendum hefur fjölgað mikið á vinnumarkaði. „Íslendingar eru enn í meirihluta þeirra sem lenda í vinnuslysum á innlendum vinnumarkaði (1.403 árið 2024) en starfsfólki með erlent ríkisfang (828 á árinu 2024) sem lendir í vinnuslysum hefur fjölgað á síðustu árum,“ segir í skýrslunni. Um 37% tilkynninga voru vegna vinnuslysa starfsfólks með erlent ríkisfang.
Bent er á að innflytjendur starfi frekar í atvinnugreinum þar sem áhætta í vinnuumhverfinu er mikil og þar fer hlutfall slasaðra með erlent ríkisfang vaxandi. Í mannvirkjagerð voru t.d. 35,6% starfandi einstaklinga með erlent ríkisfang en þeir voru 47,7 þeirra sem lentu í vinnuslysi í þeirri grein í fyrra.
Innflytjendur í meirihluta slysa í ferðaþjónustu
„Einnig er svo komið í ferðaþjónustu að fleira starfsfólk með erlent ríkisfang lendir í tilkynntum vinnuslysum samanborið við Íslendinga,“ segir í skýrslunni. Um 45% þeirra sem starfa í ferðaþjónustu eru með erlent ríkisfang. Slysatíðni er ekki eins há í ferðaþjónustu og í greinum þar sem vinnuslys eru tíðust, en fram kemur í slysatölunum að ferðaþjónusta sker sig úr að því leyti að þar eru fleiri sem slasast í vinnuslysum með erlent ríkisfang eða 62% en Íslendingar (37%).
Hanna Sigríður hvetur vinnustaði þar sem starfsfólk með erlent ríkisfang er að störfum til að huga vel að öryggi og vellíðan þess.
„Svo virðist sem innflytjendur starfi frekar í atvinnugreinum þar sem áhætta í vinnuumhverfi er mikil. Mikilvægt er að innleiða heilbrigða vinnustaðamenningu þar sem traust og virðing ríkir milli starfsfólks með ólíkan bakgrunn þannig að fólk þori að láta vita þegar hlutirnir eru ekki í lagi eða það upplifir sig óöruggt. Einnig þarf að taka sérstakt tillit til þeirrar áhættu sem í því felst að starfsfólk starfi saman með ólíkan bakgrunn og jafnvel við aðstæður sem eru því framandi. Gefum okkur andartak á hverjum degi til að ganga úr skugga um að öll upplifi sig örugg á vinnustaðnum og tryggjum þannig að öll komi heil heim,“ segir hún.