Kæra Ný handbókardrög kirkjunnar hafa valdið nokkru uppnámi og nú hafa starfshættir biskups verið kærðir.
Kæra Ný handbókardrög kirkjunnar hafa valdið nokkru uppnámi og nú hafa starfshættir biskups verið kærðir. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hefur borist stjórnsýslukæra frá trúfélaginu Gömlu götunum og beinist kæran að stjórnsýslu og starfsháttum biskups o.fl. á vettvangi þjóðkirkjunnar og ætluðum brotum ábyrgðarmanna þjóðkirkjunnar á lögum og stjórnarskrá

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hefur borist stjórnsýslukæra frá trúfélaginu Gömlu götunum og beinist kæran að stjórnsýslu og starfsháttum biskups o.fl. á vettvangi þjóðkirkjunnar og ætluðum brotum ábyrgðarmanna þjóðkirkjunnar á lögum og stjórnarskrá.

Í samtali við Morgunblaðið staðfestir Berglind Svavarsdóttir, formaður úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar, að nefndinni hafi borist téð kæra. Segir hún að fyrst verði kannað hvort málið heyri undir nefndina og fari svo verði málið tekið til efnislegrar meðferðar.

Fari svo að málið verði tekið til efnislegrar meðferðar í úrskurðarnefndinni verður báðum málsaðilum gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og í framhaldi af því kveður nefndin upp úrskurð sinn.

Úrskurður nefndarinnar er endanlegur og bindandi innan þjóðkirkjunnar en honum má síðan skjóta til dómstóla, sætti annar hvor málsaðili eða báðir sig ekki við niðurstöðuna.

Þrír nefndarmenn eiga sæti í úrskurðarnefndinni, en auk Berglindar, sem gegnir þar formennsku, sitja í henni Elsa Þorkelsdóttir og Hreinn Hákonarson.

Tilefni kærunnar er ný handbókardrög kirkjunnar sem send voru til kirkjunnar þjóna nýverið og greint var frá í fréttum. Gerð er m.a. krafa um að handbókardrögin verði úrskurðuð eða lýst ólögmæt ásamt þeirri stjórnsýslu biskups sem býr þar að baki. Einnig að „tilteknar sálmaafbakanir er birtast orðið í hefðhelguðu þar að lútandi þjóðkirkjuversi verði og lýstar ólögmætar“, að því er fram kemur í stjórnsýslukærunni.

Kærandi beinir spjótum sínum m.a. að nýrri sálmabók þjóðkirkjunnar og telur breytingar sem gerðar hafi verið á almennum kirkjubænum og sálmum í bókinni heimildarlausar og andstæðar gildandi kirkjulöggjöf sem og ákvæðum stjórnarskrár.

Tilfærir kærandi dæmi sem hann telur ganga gegn gildandi þjóðkirkjulöggjöf og nefnir að Guð sé kvengerður og kallaður ljósmóðir, Allah, átrúnaðargoð íslamista, sé ákallaður og lofsunginn berum orðum í kirkjuhelgaðri íslenskri sálmabók og er sálmur númer 312 nefndur þar til sögunnar. Þá rekur kærandi og hornin í að Guð sé ávarpaður eða ákallaður sem móðir margbreytninnar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson