Rafbíll Toyota bZ4X-rafbílar bíða afhendingar. Rafbílar voru sjaldséðir en eru nú algeng sjón.
Rafbíll Toyota bZ4X-rafbílar bíða afhendingar. Rafbílar voru sjaldséðir en eru nú algeng sjón.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tæplega 2.700 rafknúnir fólksbílar hafa selst á Íslandi frá áramótum. Með sama áframhaldi verður þetta fjórða árið í röð sem rafbílar eru söluhæstir fólksbíla, ef flokkað er eftir orkugjafa. Þetta má lesa úr tölum Samgöngustofu en Tómas…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Tæplega 2.700 rafknúnir fólksbílar hafa selst á Íslandi frá áramótum. Með sama áframhaldi verður þetta fjórða árið í röð sem rafbílar eru söluhæstir fólksbíla, ef flokkað er eftir orkugjafa.

Þetta má lesa úr tölum Samgöngustofu en Tómas Kristjánsson, stofnandi og formaður Rafbílasambands Íslands, rýndi í tölurnar fyrir Morgunblaðið. Miðað er við sölu á nýjum fólksbílum í flokki M1 í ökutækjaskrá.

Tölurnar spanna tímabilið frá ársbyrjun 2014.

Tómas vekur athygli á því að sala bensín- og dísilbíla hafi aukist á árunum 2015-2017 en byrjað að dala árið 2018. Samdráttur í sölunni hafi haldið áfram 2019 og 2020 en þau straumhvörf orðið í bílasölunni síðara árið að rafbílar urðu þá söluhæstir. Árið 2021 hafi tengiltvinnbílar tekið við forystusætinu en rafbílar verið söluhæstir frá ársbyrjun 2022.

Gjaldtakan hefur áhrif

Hins vegar dró töluvert úr sölu rafknúinna fólksbifreiða á Íslandi frá ársbyrjun 2024 (sjá súluritið hér á síðunni) sem Tómas telur meðal annars skýrast af álagningu kílómetragjalds hinn 1. janúar 2024. Við það má bæta að samtímis var dregið úr ívilnunum vegna kaupa á rafbílum; skattafsláttur fyrir að hámarki 1.320 þúsund krónur vék fyrir allt að 900 þúsund króna framlagi úr Orkusjóði.

„Staðreyndin er sú að 60-70% nýskráðra rafbíla voru ekki að fullnýta virðisaukaskattsívilnanir. Þannig að það kom ekki að sök að þessu var breytt yfir í 900 þúsund króna endurgreiðslu úr Orkusjóði. Það sem hefur bersýnilega mest áhrif á innkaup á rafbílum er kílómetragjaldið og sú staðreynd að fólk er að borga 100% meira, og bráðum 120% meira, í kílómetragjald en það kostar að aka hvern kílómetra á rafmagni. Það kostar hér um bil 3 krónur að keyra einn kílómetra á rafmagni en kílómetragjaldið er 6 krónur og er að hækka núna um áramótin í 6,7 krónur,“ segir Tómas sem telur kílómetragjaldið eiga þátt í að sala nýrra rafknúinna fólksbíla hrundi milli ára 2023 og 2024, fór úr 10.164 bílum í 3.095 bíla.

„Það er því klárt mál að kílómetragjaldið hafði áhrif á neysluna,“ segir Tómas.

Þriðja mesta salan

Á fyrri hluta þessa árs seldust sem áður segir tæplega 2.700 rafbílar og er það þriðja mesta salan á rafbílum á fyrri hluta árs, eftir að þeir komu á markaðinn á síðasta áratug.

„Almennt er rafbílasalan að rétta úr kútnum og margir að færa sig frá einorkubílum, sem sagt úr hreinum dísil- og bensínbílum, og yfir í tengiltvinnbíla,“ segir Tómas. „Hugsanlega hefur það eitthvað að segja að kílómetragjaldið á tengiltvinnbílunum er 2 krónur en ekki 6,7 krónur. Fólk virðist svolítið velja bíla eftir veskinu og fer þá eftir því hvað er hagkvæmast að keyra.

Sölutölurnar sýna að sala á bensín- og dísilbílum er að minnka. Sala bensín- og dísilbíla jókst á árunum 2015-2017 en virðist nú vera að ná nýju jafnvægi í um 2.500 bílum á ári.“

Fáir hjá bílaleigum

Tómas vekur svo athygli á því að ekki sé hægt að lesa úr þessum tölum hversu marga rafbíla bílaleigurnar kaupi hlutfallslega.

„Það má hins vegar sjá á heimasíðum bílaleiganna að framboð á rafbílum er almennt af mjög skornum skammti,“ segir Tómas.

Nú séu um 33 þúsund rafknúnir fólksbílar í umferð á Íslandi af alls um 258 þúsund fólksbílum í umferð, sem samsvarar því að um 13% fólksbílaflotans séu rafbílar.

Hlutfallið verði 30% 2030

Hann áætlar aðspurður að árið 2030 verði hlutfallið komið í 30% og í 40% árið 2040. En frá og með árinu 2030 má ætla að margir bensín- og dísilbílar sem seldust á árunum 2015-2017 verði farnir að tínast úr flotanum en þau ár seldust sem fyrr segir margir slíkir bílar.

Tómas segir því fátt benda til að það markmið í orkustefnu stjórnvalda náist að árið 2030 verði hlutdeild endurnýjanlegrar orku í samgöngum orðin 40%. Markmið stjórnvalda samkvæmt Parísarsamkomulaginu er að losun frá vegasamgöngum verði allt að 75% minni árið 2030 en 2005.

Tengigjöld mjög há

„Fjölgun hraðhleðslustöðva á landsbyggðinni er mikilvægur
þáttur í rafbílavæðingu. Því miður
hafa styrkir úr Orkusjóði til slíkra
verkefna verið í minnihluta heildarstyrkja sjóðsins í mörg ár. Rafbílasambandið hefur lengi bent á að tengigjöld þessara innviða
séu mjög há og á fundi með umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í apríl síðastliðnum lögðum við til að niðurfelling þessara gjalda myndi auka verulega áhuga þeirra fyrirtækja sem eru að byggja upp hraðhleðsluinnviði á landsbyggðinni.

Fólk er að sjá það hægt og bítandi, þrátt fyrir mikla upplýsingaóreiðu í kringum rafbílana, að þetta eru einfaldlega betri bílar. Þetta eru betri bílar að eiga og keyra og rafhlöðutæknin er nú að skila ökutækjum sem endast miklu lengur en eldsneytisbíll gerir nokkurn tímann,“ segir Tómas að lokum.

Tesla fjölgar stöðvum

Fjallað var um fjölgun hraðhleðslustöðva í Morgunblaðinu á fimmtudag. Fimm hraðhleðslugarðar frá Tesla munu bætast við í sumar en þeir eru opnir öllum rafbílaeigendum.

Höf.: Baldur Arnarson