Spursmál
Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Samanlögð þingreynsla Guðmundar Árna Stefánssonar og Einars Kristins Guðfinnssonar spannar tæpar fjóra áratugi. Allan þeirra tíma á Alþingi lauk þingi að vori með samkomulagi milli meiri- og minnihluta. Þegar þeir settust á þing, 1991 og 1993, voru meira en þrír áratugir frá því að 71. grein þingskaparlaga var virkjuð. Og henni hefur ekki verið beitt fyrr en í gær, þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis stöðvaði 2. umræðu um lög sem ætlað er að stórauka gjaldtöku á sjávarútveg í landinu.
Ekki fordæmalaust
Talað er um fordæmalausa ákvörðun og þótt hún sé það að sjálfsögðu ekki er hún söguleg. Því var ástæða til að kalla reynsluboltana tvo fyrrnefndu á vettvang Spursmála til þess að vega og meta ástandið sem nú ríkir á Alþingi Íslendinga. Ekki kemur að sök að þeir eru jafn ósammála um helstu meginatriði stjórnmálanna nú, rétt eins og á þeim tíma er þeir vermdu sæti í sölum Alþingis.
Í umræðum um þá ákvörðun meirihluta þingsins að stöðva málþóf stjórnarandstöðunnar sýndu þeir Einar Kristinn og Guðmundur Árni að þeir hafa engu gleymt, hvorki í rökræðum né þegar mál eru skoðuð í sögulegu samhengi. Þótti þáttarstjórnanda nóg um þegar dregnar voru fram lýsingar á því þegar verkamannabústaðakerfið var lagt af, en hitnaði þá enn meir í umræðunni og ljóst að kollegunum fyrrverandi er enn heitt í hamsi yfir því hvernig þau mál voru útkljáð.
Bendir Guðmundur Árni réttilega á að ekkert mál hefur fengið annað eins rými í dagskrá þingsins og það er varðar hækkun veiðigjalda. Fullyrðir hann að málið sé fullrætt og að nóg sé að renna yfir ræður minnihlutans til að sjá hversu innihaldsrýr umræðan er orðin í raun.
Einar Kristinn segir hins vegar að málið snúist um hversu illa málið sé unnið og að skollaeyrum sé skellt við varnaðarorðum fjölmargra umsagnaraðila. Fullyrðir hann raunar að undirliggjandi markmið lagasetningarinnar sé að þvinga fram aukna samþjöppun í greininni, en að enginn þori að segja sannleikann í því efni. Óhjákvæmilega muni hin stóraukna gjaldtaka þrýsta fyrirtækjum út af markaðnum og að stærstu fyrirtækin muni taka starfsemi þeirra yfir í einni eða annarri mynd.
Hverjar verða afleiðingarnar?
Guðmundur segir óhjákvæmilegt að þinginu nú verði lokið með samkomulagi. Einar Kristinn telur hins vegar að ákvörðun þingforseta kunni að hafa langvarandi áhrif. Bendir hann á að oft hafi slegið í brýnu og að miðla hafi þurft málum í þröngri stöðu við lok þings að vori. Það hafi þó alltaf tekist farsællega, þar til nú. Vill Guðmundur Árni meina að nú sé hins vegar fordæmalaus staða uppi að því leyti að stjórnarandstaðan hafi ekki ætlað að hleypa í gegn helsta áherslumáli ríkisstjórnarinnar og meirihlutans. Slíkt hafi ekki hent áður.
Skarst allnokkuð í odda með þeim félögum í tengslum við þessa umræðu og benti Einar Oddur á að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefði þurft að kyngja því að mál er varðaði afturköllun aðildar Íslands að Evrópusambandinu hefði fallið þeim megin víglínunnar þar sem stjórnarandstaðan stóð. Því sé ekki einhlítt að meirihlutinn fái ætíð vilja sínum framgengt.