Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra barði kjarnorkuknúna kafbátinn USS Newport News augum á bryggju Grundartanga á fimmtudag. Heimsóknin er til marks um skuldbindingu Íslands gagnvart NATO og tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin, sagði Þorgerður við Morgunblaðið. Rússar litu í ríkari mæli til norðurslóða og hefðu kafbáta í íslenskri lögsögu.
Undir það tók Erin Sawyer, starfandi sendiherra Bandaríkjanna, sem einnig var viðstödd. Skipherra kafbátsins, Eric McCay, sagði það gott fyrir starfsanda manna sinna að komast í land og virða um leið Ísland fyrir sér. Íslendingar væru góðir gestgjafar.
Kafbátar frá sjóhernum hafa margsinnis áður komið í þjónustuheimsóknir við Íslandsstrendur frá árinu 2023. Þetta er þó í fyrsta skipti sem kjarnorkuknúinn bandarískur kafbátur kemur í íslenska höfn. Er heimsóknin því söguleg. floki@mbl.is