Stöðvaði umræðu Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis beitti svokölluðu kjarnorkuákvæði þingskapalaga í gær. Þriðja umræða um veiðigjaldafrumvarpið hefst í dag.
Stöðvaði umræðu Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis beitti svokölluðu kjarnorkuákvæði þingskapalaga í gær. Þriðja umræða um veiðigjaldafrumvarpið hefst í dag. — Morgunblaðið/Eyþór
„Með því að beita þessu ákvæði hafa forsætisráðherra og ríkisstjórnin í raun valtað yfir minnihlutann, hafnað öllu samtali eða samráði og sett ný viðmið í samskiptum á milli meirihluta og minnihluta á Alþingi

Ólafur E. Jóhannsson

Kjartan Leifur Sigurðsson

Flóki Larsen

„Með því að beita þessu ákvæði hafa forsætisráðherra og ríkisstjórnin í raun valtað yfir minnihlutann, hafnað öllu samtali eða samráði og sett ný viðmið í samskiptum á milli meirihluta og minnihluta á Alþingi. Það er óhjákvæmilegt að þetta hafi áhrif. Ekki bara til skamms tíma og ekki bara á þessu kjörtímabili. Þau voru að breyta hér öllum reglum og hefðum sem verið hafa á Alþingi Íslendinga síðustu áratugi,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið, spurð um afleiðingar þess að svokölluðu kjarnorkuákvæði þingskapalaga hafi verið beitt á Alþingi í gær til að knýja fram lok 2. umræðu um veiðigjaldafrumvarp atvinnuvegaráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir hins vegar að yfirlýsingar stjórnarandstöðunnar hafi bent til þess að ætlunin væri að beita neitunarvaldi. „Það er ekki í
íslenskum lögum og ekki í samræmi við stjórnarskrá. Forseti var með skrefi sínu í dag að verja lýðræðið og þingræðið. Það skiptir máli að stjórnmálin takist á en á endanum þarf að verja lýðræðið og þingræðið,“ sagði hún.

„Óhjákvæmilega mun þetta hafa verulegar afleiðingar. Gallinn við það að ýta á kjarnorkuhnappinn er að þá verður kjarnorkustríð. Það er alveg ljóst að þetta mun hafa mikil áhrif á lok þingstarfa, það segir sig sjálft,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins.

„En það er líka óhjákvæmilegt að þetta muni hafa áhrif að minnsta kosti út þetta kjörtímabil, ef ekki lengur. Með þessu er brotið blað í sögunni, ekki aðeins að þessu ákvæði var beitt í fyrsta skipti í 60 ár, heldur einnig að því var beitt á skattafrumvarp sem á ekki að taka gildi fyrr en næsta vetur og forsætisráðherrann var orðinn þreyttur á því að ræða málið í júlí,“ segir Sigmundur Davíð.

„Ég get haft mörg orð um þetta. Fyrst og fremst að við höfum borið gæfu til þess á Íslandi síðustu áratugi að nota samræðustjórnmál, en grundvöllur lýðræðisins er samvinna og niðurstaða fæst með samtali. Það hefur verið gæfa okkar núna til nokkurra áratuga að byggja á þessu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. „Það er nokkuð þungt í mér yfir þessu. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig hlutirnir þróast í framhaldinu,“ segir hann.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson, Kjartan Leifur Sigurðsson