Birta Hannesdóttir
birta@mbl.is
Tveir einstaklingar með alvarlega heilabilun hafa nýlega þurft að afplána dóm í lokuðu fangelsisúrræði. Fangarnir sem um ræðir eru mikið til ósjálfbjarga og þurfa aðstoð við helstu athafnir daglegs lífs. Hafa samfangar þeirra verið fengnir til að veita þeim aðstoð og í einhverjum tilfellum fengið greitt fyrir.
Lögfræðingur á vegum Öryrkjabandalags Íslands og annar á vegum Afstöðu, félags fanga, fóru nýverið í heimsókn á Hólmsheiði og Litla-Hraun til að skoða aðstæður með tilliti til aðbúnaðar. Á þeim tíma afplánuðu tveir fangar dóm á Hólmsheiði sem voru með alvarlega heilabilun. Þurftu þeir aðstoð við athafnir daglegs lífs, eins og að elda mat, hugsa um hreinlæti og annað.
Sigurður Árnason, lögfræðingur hjá Öryrkjabandalagi Íslands, fór á vegum bandalagsins að skoða aðstæður í fangelsunum. Að hans mati var um að ræða einstaklinga sem hefðu frekar átt heima í öðru þjónustuúrræði að teknu tilliti til veikinda þeirra.
Hætta á mismunun
Líkt og fyrr segir hafa aðrir fangar fengið greitt fyrir að annast fanga sem glíma við alvarleg veikindi eins og heilabilun. Eru það þá fangar sem ekki eru færir um að sjá um sig sjálfir. Um er að ræða svokölluð fangalaun.
Birgir Jónasson settur fangelsismálastjóri segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi tíðkast um nokkurt skeið að fangar fái greitt fyrir að annast aðra fanga sem eru ófærir um að hugsa um sig sjálfir.
Er það metið hverju sinni hversu mikla aðstoð viðkomandi fangi þarf og fer matið fram innan Fangelsismálastofnunar.
Spurður út í greiðslur til fanga fyrir að annast aðra alvarlega veika einstaklinga innan fangelsis segir Sigurður að tvennt komi upp í hugann:
„Það getur orðið hætta á einhvers konar mismunun, þó svo að ég hafi ekki heyrt nein dæmi um það, og ef þetta eru mikið fatlaðir eða mikið veikir einstaklingar gætu þeir þarfnast umönnunar hæfs aðila,“ segir Sigurður og bendir jafnframt á að ef umræddir fangar væru ekki að afplána dóm gætu þeir átt rétt á viðeigandi þjónustuúrræði frá félagsþjónustunni.
Við aðalmeðferð í Vopnafjarðarmálinu svokallaða kom fram í máli Jóns Þórs Dagbjartssonar, sem var sakfelldur fyrir alvarlega árás á fyrrverandi sambýliskonu sína og barnsmóður, að á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði hefði hann aðstoðað mann þar inni sem væri með alzheimer-sjúkdóminn.
Lýsti Jón því að hann hefði veitt manninum aðstoð m.a. með því að „skúra klefann hans, þrífa, þvo af rúmum og hugsa algjörlega um hann“.
Tryggja heilbrigðisþjónustu
Birgir fangelsismálastjóri kveðst ekki geta tjáð sig með beinum hætti um einstök mál en segir að það sé ekki algengt að fólk með heilabilun þurfi að sæta fangelsisvist. Ávallt sé reynt að mæta veikindum fanga, hver sem þau eru.
Birgir segir að heilbrigðisþjónusta sé útvistuð innan fangelsisins. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu annast heilbrigðisþjónustu í fangelsinu á Hólmsheiði og Heilsugæslan á Suðurlandi sér um að veita föngum í fangelsinu á Litla-Hrauni heilbrigðisþjónustu.
„Þetta er utanaðkomandi þjónusta sem er veitt föngum. Þannig að það er alltaf tryggt, hvort sem einstaklingur glímir við heilabilun eða annað, að viðkomandi á alltaf rétt á heilbrigðisþjónustu,“ segir Birgir.
Umboðsmaður Alþingis og sex aðrir starfsmenn embættisins fóru og könnuðu aðstæður í fangelsinu á Hólmsheiði í maí. Kynntu þeir sér aðbúnað og starfshættu í fangelsinu auk þess sem rætt var við fanga og starfsfólk. Í heimsókninni var lögð áhersla á að skoða verklag er lýtur að hugsanlegum þvingunum og öryggisráðstöfunum.
Heimsóknin var hluti af OPCAT-eftirliti embættisins en eftir hverja heimsókn er gerð skýrsla þar sem greint er frá helstu niðurstöðum og eftir atvikum bent á leiðir til úrbóta.