— Morgunblaðið/Eggert
Félagsbústaðir förguðu búslóð fyrrverandi skjólstæðings í vor án hans vitundar og samþykkis. Hann segir verðmæt málverk hafa verið meðal muna í búslóðinni en öllum eigum hans var fargað eftir að hafa verið í tvö ár í vörslu Félagsbústaða

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Félagsbústaðir förguðu búslóð fyrrverandi skjólstæðings í vor án hans vitundar og samþykkis. Hann segir verðmæt málverk hafa verið meðal muna í búslóðinni en öllum eigum hans var fargað eftir að hafa verið í tvö ár í vörslu Félagsbústaða. Viðvörun var send í bréfi á heimilisfang mannsins, íbúð á vegum Félagsbústaða, þaðan sem hann var fluttur. Hann hafði ekki búið þar í um eitt og hálft ár þegar Félagsbústaðir sendu viðvörunarbréfið.

Tölvupóstur var einnig sendur á netfang mannsins en hann segist ekki hafa orðið hans var. Búslóðin hafði verið í geymslu í gámi á vegum Félagsbústaða í um tvö ár þegar stofnunin sendi út viðvörunina vor. Tveimur mánuðum síðar var búslóðinni fargað.

Þá segir maðurinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, að hann hafi ekki verið látinn vita símleiðis. Félagsbústaðir hafa ekki viljað tjá sig efnislega um mál mannsins en í skriflegu svari frá stofnuninni segir að búslóð sé aldrei fargað nema að undangenginni ítarlegri tilraun til að ná í leigjanda og koma upplýsingum til hans með þeim leiðum sem félaginu standa til boða.

Fyrrnefnd íbúð var félagsleg íbúð á vegum Félagsbústaða sem maðurinn leigði áður en hann fór í vímuefnameðferð, en maðurinn hefur um áratugaskeið átt við fíkniefnavanda að stríða. Eftir meðferðina féll hann en fór aftur í meðferð og hefur nú verið allsgáður í 15 mánuði. Hann býr nú á áfangaheimili fyrir fíkla á batavegi.

Félagsbústaðir tóku muni hans til geymslu þegar hann skilaði íbúðinni og fór í meðferð. Eftir seinni meðferðina, sem var þriggja mánaða löng, segist hann ekki hafa getað vitjað munanna vegna þess að hann hafi verið heimilislaus fyrst um sinn. Hann hafi fengið inni hjá vinum, á gistiheimilum og í gistiskýlinu áður en hann fékk pláss á áfangaheimilinu. Þegar hann fór loks á skrifstofu Félagsbústaða í sumar til að athuga með búslóðina var honum tjáð að henni hefði verið fargað skömmu áður.

Að sögn mannsins lét félagsráðgjafi hans hann ekki vita af fyrirhugaðri förgun. Sviðsstjóri þjónustu- og upplýsingasviðs hjá Félagsbústöðum sagði við Morgunblaðið að Félagsbústaðir sendu ávallt afrit á þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar þegar viðvörun er send út. Í skriflegu svari frá upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar segir: „Á milli velferðarsviðs og Félagsbústaða er mjög mikil samvinna, enda eru einstaklingar sem leigja hjá Félagsbústöðum margir hverjir með félagsráðgjafa hjá Reykjavíkurborg. Því er eðlilegt að ráðgjafi sem starfar hjá Reykjavíkurborg líti svo á að einstaklingur sem hafi fengið bréf frá Félagsbústöðum hafi verið upplýstur um sína stöðu.“

Maðurinn segist sjá eftir verðmætu málverkasafni sínu. Aðstandandi hans tekur undir að hann hafi átt safn af íslenskum málverkum, m.a. myndir eftir Alfreð Flóka sem foreldrar mannsins fengu að gjöf við fæðingu hans, en foreldrarnir voru áberandi í listalífi Reykjavíkur á árum áður. Maðurinn segir að auk Flóka hafi í safninu hafi verið myndir eftir Steingrím Eyfjörð, Nínu Tryggvadóttur, Dieter Roth, Jónas Svafár og Tolla. Áðurnefndur sviðsstjóri sagði verktaka ráðna til að sjá um förgun og þeir ákvæðu með hvaða hætti eigum fólks væri fargað. Félagsbústaðir tækju ekki afstöðu til verðmætis þeirra og gætu ekki sagt til um hvernig förgunin færi fram. Sviðsstjórinn vildi ekki veita upplýsingar um hver tæki að sér slík verkefni.

Höf.: Flóki Larsen