Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Hér verða margir þeir sem tengjast fluginu á Íslandi. Flinkir listflugmenn úr flottum klúbbum, flugnemar og auðvitað margir fleiri. Þetta er skemmtun og mikilvægur viðburður,“ segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.
Nú um helgina mun flugáhugafólk, fagmenn og fjölskyldur þeirra hvaðanæva af landinu leggja leið sína á flughátíðina Allt sem flýgur, sem haldin verður á Helluflugvelli. Hátíðin er árleg og alltaf er mikið undir lagt.
Meðal annars verður nú hægt að skoða einu rafmagnsflugvél Íslendinga og sömuleiðis sjóflugvél. Hátíðin sameinar í raun ólíkar greinar flugs í einstakri og líflegri flughátíð þar sem má meðal annars sjá svifflug, þyrlur, sjóflugvél, fallhlífarstökk, listflug, einkaflugvélar, dróna, fisflug og svifvængjaflug. Tugir flugvéla og annarra slíkra véla verða á svæðinu.
„Þetta er samkoma þar sem almenningur og flugfólk geta hist, fræðst og notið saman þeirrar fjölbreytni sem einkennir flugið á Íslandi,“ segir Matthías.