Guðrún Hafsteinsdóttir
Gærdagurinn fer í sögubækurnar sem svartur dagur í sögu Alþingis. Með því að beita 71. gr. þingskapalaga, svokölluðu kjarnorkuákvæði, ákvað ríkisstjórnin að loka umræðu um umdeildasta mál þingsins, hækkun veiðigjalda. Kristrún Frostadóttir er þar með fyrsti forsætisráðherrann frá 1959 sem mistekst að miðla málum í þinglokasamningum. Það er alvarlegur áfellisdómur yfir forsætisráðherra og vinnubrögðum hennar.
Við í Sjálfstæðisflokknum erum ýmsu vön þegar kemur að lýðskrumi ríkisstjórnarinnar en botninn tók úr þegar ákvörðunin var réttlætt með því að „vernda lýðræðið“. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar talaði um orrustuna um Ísland, og því er eðlilegt að spyrja: Ef þetta er sannarlega orrustan um Ísland, hverjir eru andstæðingar hinnar réttlátu ríkisstjórnar? Eru það Byggðastofnun, Starfsgreinasambandið eða Kerecis? Eða kannski Félag skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra- og málmtæknimanna eða KPMG? Ef til vill eru það þau 26 sveitarfélög sem náðu þverpólitískri sátt í afstöðu sinni gegn frumvarpinu?
Það eru þessir aðilar, og fjölmargir fleiri, sem hafa bent á alvarlega ágalla á veiðigjaldamálinu. Það eru þessir aðilar sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur talar um sem sérhagsmunaöfl af þannig stærðargráðu að taka þarf lýðræðið úr sambandi með beitingu kjarnorkuákvæðisins til þess að þagga niður í þeim. Ekki vegna þjóðarvár. Ekki vegna neyðarástands. Heldur vegna skattahækkunar.
Það sem gerðist í gær var ekki upphaf sáttar um þennan grunnatvinnuveg þjóðarinnar. Það var valdboð. Ef ríkisstjórnin treystir ekki eigin málflutningi til að standast umræðu er það ekki vandamál lýðræðisins heldur vandamál ríkisstjórnarinnar.
Birgir Guðmundsson prófessor benti réttilega á í viðtali í vikunni: „Leiðin að harðræði er vörðuð litlum skrefum.“ Stjórnarmeirihlutinn virðist ekki gera sér grein fyrir áhrifum þessarar ákvörðunar, en um leið og við teljum eðlilegt að hafna málefnalegri umræðu byggðri á gögnum og mati helstu sérfræðinga verðum við smátt og smátt ónæm fyrir því sem í rauninni gerist: að lýðræðinu er ýtt til hliðar í þágu þæginda valdsins. Það var það sem gerðist á Alþingi í gær.
Frumhlaup meirihlutans á Alþingi í gær snýst ekki um eitt frumvarp eða eitt ákvæði í þingsköpum. Þetta snýst um þá leið sem við viljum fara sem samfélag. Lýðræðið er ekki fullkomið kerfi heldur mannanna verk, en það er kerfi sem byggir á umræðu, hlustun, gagnrýni og sameiginlegri ábyrgð. Þegar ríkisstjórn ákveður að loka fyrir umræðu vegna þess að hún er henni ekki þóknanleg er það ekki merki um styrk – heldur veikleika.
Ég nefndi fyrr í greininni að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefði sagt að þetta mál væri „orrustan um Ísland“. En orrustan um Ísland hefst ekki fyrr en á næsta ári, þegar ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst þröngva okkur inn í Evrópusambandið. Þar verður reynt að ná samstöðu með sama hætti og nú – með þrýstingi í stað samtals, með útilokun í stað umræðu, með hroka í stað samráðs.
Það sem ríkisstjórnin kallar vörn lýðræðisins er í raun atlaga að því. Vörn lýðræðisins felst ekki í því að þagga niður
í stjórnarandstöðunni. Hún felst í því að hlusta, svara og leggja mál fram sem standast gagnrýna skoðun. Ef við förum að líta á það sem sjálfsagt að útiloka gagnrýni, þrengja að umræðu og búa til stjórnskipulega forsögu fyrir slíkt verðum við að gera okkur grein fyrir því að lýðræðið veikist ekki í einu risastóru skrefi – heldur í litlum, hljóðlátum ákvörðunum sem færa völdin nær valdhöfunum og fjær fólkinu.
En það er hægt að snúa þessari vegferð við. Því þó að ríkisstjórnin hafi kosið að beita valdi í stað umræðu, hroka í stað samráðs, munum við sjálfstæðismenn standa með fólkinu í landinu. Með lýðræðinu. Með fullveldinu. Með skynseminni.
Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram standa vörð um opna og málefnalega umræðu. Um gagnrýna hugsun. Um skynsemi og ábyrgð. Við munum ekki gefa okkur undir það sjónarhorn að lýðræði sé eitthvað sem hægt er að virkja þegar hentar og slökkva á þegar það verður óþægilegt. Því lýðræðið er ekki tól í þjónustu valdsins – það er varnargarðurinn sem stendur vörð um rétt fólksins.
Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins.