Sigfús Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar og varaformaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, hefði viljað sjá varfærnari skref tekin í frumvarpi um hækkun veiðigjalda sem stendur til að afgreiða í dag með breytingum.
„Þetta mun leggjast að mestu leyti á stærstu útgerðirnar en einnig mun þetta leggjast af miklum þunga á litlar og meðalstórar útgerðir. Við höfum áhyggjur af framtíð þeirra og því hvort þetta muni leiða til enn frekari samþjöppunar í greininni,“ segir Sigfús sem jafnframt hefur áhyggjur af að fiskvinnslum verði lokað víða á landinu.
Meirihluti atvinnuveganefndar kynnti að lokinni annarri umræðu breytingartillögu sem felur m.a. í sér að Byggðastofnun verði falið að meta áhrif frumvarpsins á stöðu sjávarútvegssveitarfélaga og skila til ráðherra skýrslu þar að lútandi fyrir árslok 2027. Sigfúsi líst ágætlega á þá breytingu en segir að mat sem þetta hefði þurft að liggja fyrir mun fyrr.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, tekur undir áhyggjur Sigfúsar og segir framgang frumvarpsins vonbrigði, án þess að fyrir liggi greining á áhrifum og án þess að tekið hafi verið tillit til greininga fagaðila og sjónarmiða hagaðila sem sýndu fram á „verulega ágalla“.
„Sjávarútvegur er auk þess í alþjóðlegri samkeppni og er því ekki í færum til þess að velta gjaldtökunni út í verð afurða. Þegar ríkið er farið að taka yfir 70% hagnaðar fiskveiða í formi veiðigjalds þá er ljóst að við því þurfa fyrirtæki að bregðast með hagræðingu. Fjárfesting dregst saman, kaup á þjónustu minnka og starfsfólki fækkar, svo hin augljósu áhrif séu sett fram,“ segir hún.
Hún segir breytingar í meðförum þingsins um innleiðingu hækkunar í skrefum hafa lítil áhrif. „Ef aðferðafræði er gölluð og forsendur byggjast á röngum tölum þá verður böl ekki bætt með lítils háttar tímabundnum afsláttum árið 2026 og 2027.“