Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Ísraelski herinn viðurkennir að hafa gert „tæknileg mistök“ þegar drónaárás hans á al-Nuseirat-flóttamannabúðirnar á Gasasvæðinu varð sex börnum að bana í gærdag.
Eru börnin meðal tíu fórnarlamba árásarinnar sem týndu lífi sínu, en 16 manns, þar af sjö börn, voru flutt á al-Awda-sjúkrahúsið skammt frá búðunum sem staðsettar eru um miðbik Gasasvæðisins.
Harma tjón almennra borgara
Greina sjónarvottar frá því hvernig fjarstýrður árásardróni ísraelskur skaut flugskeyti að hópi fólks sem beið þess að geta fyllt á vatnsbrúsa sína í búðunum. Játuðu talsmenn Ísraelshers á sig handvömmina og kváðust hafa beint skeyti sínu að hryðjuverkamanni innan vébanda herskáu hreyfingarinnar Íslamska jihad sem á sínum tíma klauf sig frá súnnímúslimasamtökunum Múslimska bræðralaginu.
Flugskeytaárásir ágerst
Kvaðst Ísraelsher í tilkynningu um harmleikinn vita til þess að gjörðir hans hefðu kostað almenna borgara lífið þrátt fyrir að reynt væri „til hins ýtrasta“ að koma í veg fyrir slíkar mannfórnir og klykkti út með því að hann harmaði allt líkamstjón almennra borgara.
Myndskeið, sem breska ríkisútvarpið BBC kveður ófalsað, sýnir hóp fólks hraða sér að látnum og slösuðum til að veita fyrstu hjálp eftir að flugskeytið hæfði mark sitt í flóttamannabúðunum sem eru aðeins steinsnar frá leikskóla og grunnskóla í Nuseirat.
Segir ríkisútvarpið breska ekki unnt að greina af myndskeiðinu hvað hafi hæft fólkið í flóttamannabúðunum né úr hvaða átt skeytið kom. Flugskeytaárásir Ísraela á Gasa hafa ágerst nýverið og greinir talsmaður heimavarnarliðs Gasa frá því að 19 Palestínumenn hafi fallið í árásum á íbúðarhús á Gasasvæðinu miðju og á Gasaborg í gær.
Í yfirlýsingu Alþjóðanefndar Rauða krossins segir að hjálparsamtökin hafi meðhöndlað fórnarlömb fleiri hóptilfella á vettvangssjúkrahúsi sínu í Rafah á Suður-Gasa síðustu sex vikurnar en allt árið á undan til samans.