Starfs- og stýrihópar og aðrir starfandi vinnuhópar eru alls 91 innan borgarkerfisins. Þetta kemur fram í skriflegu svari Þorsteins Gunnarssonar borgarritara við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarráðs þann 14. nóvember sl. Svarið er dagsett þann 8. júlí.
Þar af eru 56 hópar sem skipaðir hafa verið af borgarstjóra, borgarritara og miðlægri stjórnsýslu. Aðrir starfshópar, 35 talsins, hafa verið skipaðir af sviðsstjórum á hinum ýmsu sviðum stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.
Sviðið sem hefur flesta starfs- eða stýrihópa og aðra vinnuhópa á sinni könnu er velferðarsvið. Í svari borgarfulltrúa kemur fram að þeir séu alls tíu talsins.
Meðal starfandi hópa sem tilgreindir eru í svarinu eru stýrihópur um nýtingu stafrænna kennslulausna, starfshópur um Hringrásargarð á Álfsnesi og starfshópur um ráðningarrýni. floki@mbl.is