Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fagnað var á Höfn í Hornafirði á laugardag þegar Ingibjörg, nýtt björgunarskip, kom í fyrsta sinn til heimahafnar. Skipið er 16 metra langt og gengur 30 sml/klst. Er spánnýtt, smíðað í Finnlandi og sömu gerðar og fjögur björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem komið hafa til landsins á síðustu árum.
„Okkur var nauðsynlegt að fá nýtt skip, samanber að hér fyrir utan Hornafjörð er drjúg umferð til dæmis fiski- og farskipa. Einnig eru skemmtibátar og skútur mikið hér á ferðinni djúpt úti og eru þá að koma eða fara frá til dæmis Færeyjum eða Bretlandi. Þeirra ferðum fylgja stundum útköll,“ segir Friðrik Jónas Friðriksson skipstjóri.
„Nýlega fórum við til dæmis í sjúkraflutning langt út, ferð sem tók um sólarhring. Í dag á nýju skipi tæki slík ferð helmingi skemmri tíma. Slíkt sýnir hvaða byltingu hin nýja Ingibjörg boðar. Við sóttum skipið til Reykjavíkur og sigldum svo hingað til Hafnar aðfaranótt laugardags. Lentum á leiðinni í svolitlum kaldaskít svo mannskapurinn fór að ókyrrast. Skipið okkar góða reyndist hins vegar ljómandi vel í þeirri ferð.“
Heildarkostnaður við kaup á nýja skipinu er um 340 m.kr. Af því koma 84 m.kr. í hlut Björgunarbátasjóðs Hornafjarðar. „Safnast þegar saman kemur,“ segir Friðrik skipstjóri.