Þrýstingur Trump virðist vilja knýja fram, með hraði, tollasamninga sem væru Bandaríkjunum hagfelldir.
Þrýstingur Trump virðist vilja knýja fram, með hraði, tollasamninga sem væru Bandaríkjunum hagfelldir. — AFP/Brendan Smialowski
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Donald Trump hótar nú að frá og með 1. ágúst muni Bandaríkin leggja 30% toll á varning frá Mexíkó og Evrópusambandinu. Trump tilkynnti þetta snemma á laugardag með því að birta, á samfélagsmiðlinum Truth Social, afrit af bréfum sem stíluð voru á…

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Donald Trump hótar nú að frá og með 1. ágúst muni Bandaríkin leggja 30% toll á varning frá Mexíkó og Evrópusambandinu.

Trump tilkynnti þetta snemma á laugardag með því að birta, á samfélagsmiðlinum Truth Social, afrit af bréfum sem stíluð voru á Claudiu Sheinbaum Pardo Mexíkóforseta og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Í báðum bréfum segir Trump að tollana megi skrifa á þann halla sem er í viðskiptum Bandaríkjanna við ESB og við nágranna sinn í suðri. Ritaði hann jafnframt að þessi viðskiptahalli stefndi bandarísku efnahagslífi í voða og fæli líka í sér þjóðaröryggisvanda.

Á undanförnum dögum hefur Trump sent sams konar bréf til fulltrúa 23 ríkja, s.s. Brasilíu, Japans og Kanada, með hótunum um að hækka tolla upp í 20 til 50%.

Í bréfinu til mexíkóskra stjórnvalda tiltekur Trump sérstaklega að gera þurfi meira til að ráða niðurlögum mexíkóskra glæpagengja sem ógni allri Norður-Ameríku, og að ef gerð verði gangskör að því að leysa þann vanda verði tollarnir endurskoðaðir. Í bréfinu til ESB sagði Trump hins vegar að fyrirhugaðir tollar verði mögulega endurskoðaðir ef Evrópusambandið veitir bandarískum fyrirtækjum betri aðgang að evrópskum mörkuðum „sem hingað til hafa verið lokaðir [erlendum seljendum]“.

Í báðum bréfum ítrekaði Trump að evrópsk og mexíkósk fyrirtæki gætu sloppið við tollana með því að færa framleiðslu sína til Bandaríkjanna, og myndu þá bandarísk stjórnvöld leggja sig öll fram við að veita nauðsynleg leyfi með miklum hraði. Jafnframt tiltaka bréfin að ef ESB og Mexíkó hyggjast svara í sömu mynt muni Bandaríkjastjórn hækka tollana enn frekar, um samsvarandi prósentutölu.

Vilja semja en eru við öllu búin

Undanfarna mánuði hafa fulltrúar Mexíkó og Evrópusambandsins átt í stífum samningaviðræðum um tollamál. Mexíkósk stjórnvöld segja viðræðurnar hafa gengið vel og að unnið sé að því að miðla málum áður en nýir tollar Trumps taka gildi. Fulltrúar ESB hafa einkum reynt að fá bandaríska ráðamenn til að lækka 25% toll á innfluttar bifreiðar og fella niður tolla á áfengi, flugvélar og flugvélaíhluti. Um það bil 197 milljarða evra halli, Evrópu í hag, er á vöruviðskiptum ESB og Bandaríkjanna og hafa ráðamenn í Brussel lagt það til að draga úr hallanum með því að auka kaup á bandarískum hergögnum og bandarísku jarðgasi. Hallinn á þjónustuviðskiptum er aftur á móti Bandaríkjunum í hag og nemur nærri 109 milljörðum evra, að sögn Reuters.

Í umfjöllun sinni um málið hefur FT eftir ónafngreindum samningamanni ESB að nýjasta útspil Trumps beri þess merki að vera fyrst og fremst ætlað að knýja fram tollasamninga sem væru Bandaríkjunum hagstæðir. Með því að hóta svo háum tollum, og veita aðeins tveggja vikna fyrirvara, setur Trump mikinn þrýsting á viðsemjendur Bandaríkjanna, sem hingað til hafa forðast að gjalda Bandaríkjunum líku líkt.

Ólíkur tónn var í viðbrögðum evrópskra ráðamanna við nýjustu hótunum Trumps. Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu hvatti til sátta og sagði að með sanngjörnum tollasamningum væri hægt að efla Vesturlönd í heild sinni. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hvatti hins vegar til þess að fulltrúar Evrópusambandsins hefðust strax handa við að undirbúa gagnaðgerðir „sem mark væri á takandi“.

Ursula von der Leyen sagði að Evrópusambandið myndi freista þess að semja um ásættanlega lausn, og fresta hvers kyns aðgerðum gegn Bandaríkjunum fram til ágúst.

Evrópskir útflytjendur hafa brugðist illa við hótunum Trumps og hafa t.d. fulltrúar franskra vín- og ostabænda varað við því að ekki aðeins gætu hærri tollar bitnað á mikilvægum útflutningi til Bandaríkjanna, heldur myndu tollarnir hafa kælandi áhrif á heimsvísu og draga úr getu neytenda til að láta eftir sér að kaupa góða vínflösku eða hleif af osti.

Tollarnir hafa verið hvalreki fyrir ríkissjóð

Athygli vekur að þrátt fyrir að hafa ekki enn staðið við alvarlegustu hótanirnar hafa tekjur ríkissjóðs Bandaríkjanna af tollum rokið upp eftir að Trump komst til valda. Eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá lagði Trump á flatan 10% viðbótartoll eftir að hafa slegið á frest þeim ofurtollum sem hann hótaði í vor, og þá hafa tollar verið hækkaðir á tiltekna vöruflokka, s.s. ál og stál.

Í forsetatíð Joes Biden skiluðu tollar á bilinu 5 til 10 milljörðum dala til ríkissjóðs í mánuði hverjum en nú nema tollatekjurnar um 26,6 milljörðum dala mánaðarlega. Reuters greindi frá því í lok síðustu viku að tekjur ríkissjóðs Bandaríkjanna af tollum hefðu núna í fyrsta skipti farið yfir 100 milljarða dala múrinn á yfirstandandi fjárhagsári, sem lýkur í septemberlok, og þá stefnir í að tollarnir afli ríkissjóði allt að 300 milljörðum dala á þessu almanaksári. Nema tollar nú tæplega 5% af heildartekjum bandaríska alríkisins, en áður var hlutfallið í kringum 2%.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson