Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Upplegg Þórunnar Sveinbjarnardóttur forseta Alþingis að þinglokum, sem fyrirhuguð eru í dag, var samþykkt á laugardaginn eftir dramatískan aðdraganda í þinginu.
Upphafið að atburðarás þeirri má rekja allt aftur til þess er drög að frumvarpi um veiðigjöld voru lögð fram í samráðsgátt eftir hádegi 25. mars sl. og var umsagnarfrestur veittur til 3. apríl, eða í níu daga.
Veittur umsagnarfrestur var óvenjustuttur en í reglum um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa er gert ráð fyrir að gefinn sé „hæfilegur frestur“ til umsagnar, „að minnsta kosti tvær til fjórar vikur“. Ekki voru veittar skýringar á óvenjustuttum umsagnarfresti.
Í kjölfarið var frumvarpi atvinnuvegaráðherra um hækkun veiðigjalda útbýtt á þingi þann 30. apríl. Ýmsar breytingar voru þar gerðar frá frumvarpsdrögum, m.a. var útreikningsaðferð vegna veiðigjalds á fimm tegundir breytt og frítekjumark hækkað.
Fyrsta umræða í þingsal hófst 5. maí og stóð til 10. maí en frumvarpið var tekið til atkvæðagreiðslu 12. maí og vísað til atvinnuveganefndar. Þann sama dag sendi nefndin umsagnarbeiðnir og var frestur veittur til 26. maí. Flestar umsagnir voru neikvæðar, þar á meðal umsagnir sjávarútvegssveitarfélaga, nýsköpunarfyrirtækja, Starfsgreinasambandsins og fleiri.
Þann 14. júní lagði meirihluti atvinnuveganefndar fram nefndarálit með breytingartillögu, en með álitinu var meðal annars leiðréttur rangur útreikningur í frumvarpi atvinnuvegaráðherra á fjárhæðum veiðigjalda, en fram til þess var við meðferð málsins byggt á vanmetnum fjárhæðum, bæði í þinglegri meðferð og í umsögnum.
Kjarnorkuákvæði beitt
Ýmislegt bendir til þess að áform um beitingu kjarnorkuákvæðisins til þess að stöðva umræðu hafi verið fyrir hendi jafnvel áður en umræða um veiðigjöld hófst. Fram hefur komið að 7. maí, á öðrum degi fyrstu umræðu um veiðigjaldafrumvarpið, hafi skrifstofa Alþingis sent Flokki fólksins minnisblað, skv. beiðni flokksins, um 71. grein þingskapalaga, hið svokallaða kjarnorkuákvæði. Ekki liggur fyrir hvenær flokkurinn óskaði eftir minnisblaðinu. Skrifstofa Alþingis ber fyrir sig trúnað og Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Flokks fólksins, hefur sagt opinberlega að hann muni ekki hvenær beiðnin var send. Líklegt verður þó að teljast að beiðnin hafi verið send áður en nokkur umræða um framvarpið var hafin á þingi.
Önnur umræða í þingsal hófst 18. júní og stóð í alls 16 daga – og gjarnan fram á nótt – allt fram til sl. föstudags, 11. júlí, þegar forseti Alþingis beitti kjarnorkuákvæði þingskapalaga til að stöðva umræður og þvinga málið í atkvæðagreiðslu. Málið gekk til atvinnuveganefndar að atkvæðagreiðslu lokinni.
Degi eftir beitingu kjarnorkuákvæðisins, laugardaginn 12. júlí, voru niðurstöður könnunar sem Gallup vann fyrir Samfylkinguna um vinsældir ráðherra birtar, en könnunin fór fram 20. júní til 9. júlí, það er á meðan önnur umræða veiðigjaldafrumvarpsins stóð sem hæst.
Sama dag mættust stálin stinn í þinghúsinu í kjölfar beitingar kjarnorkuákvæðisins. Mikill hiti var í mönnum og þingfundi ítrekað frestað. Heyra mátti hurðarskelli á göngum þinghússins, en þó fór svo að upplegg þingforseta var samþykkt.
Í því fólst samkomulag um að frumvarp til hækkunar veiðigjalda yrði samþykkt með breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar sem fram kom eftir að önnur umræða málsins var stöðvuð. Þá fólst í því að frumvarp til breytingar á lögum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga yrði samþykkt með breytingartillögum, þar með talið breytingartillögu minnihlutans. Því er ljóst að ekki mun koma til skerðingar á framlögum til sveitarfélaga sem fullnýta ekki hámarksálagningu útsvars. Loks var samþykkt að fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2030 færi í gegn fyrir þinglok sem og veiting ríkisborgararéttar.