Diljá Mist Einarsdóttir
Diljá Mist Einarsdóttir
En afraksturinn af sjálftöku vinstriflokka á verðmætasköpun og sjálfsaflafé landsmanna er ekki endilega digrari sjóðir ríkisins.

Diljá Mist Einarsdóttir

Við sjálfstæðismenn fáum gjarnan að heyra það að við höfum sjálf verið í áralöngu samstarfi við vinstriflokka, sem sé í vinstristjórn. Það er satt og rétt, enda hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki fengið umboð til ríkisstjórnarmyndunar án samstarfs við aðra flokka sem eru, jú, flestallir vinstriflokkar. En nú er hér enn eina ferðina tekin við hrein vinstristjórn. Og því er ekki úr vegi að bera saman áherslur og árangur stjórna þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er við völd og þar sem hann er ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn lækkar skatta

Alþingismaðurinn Óli Björn Kárason kallaði fram þær tölur á síðasta kjörtímabili, með fyrirspurn um breytingar á sköttum og gjöldum yfir 10 ára tímabil sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í ríkisstjórn, að skattar höfðu þá verið hækkaðir 28 sinnum en lækkaðir 63 sinnum. Tekjuskattur var lægri en í tíð vinstristjórnarinnar sem við tókum þá við, tryggingagjöld voru lækkuð verulega svo og tollar og vörugjöld, erfðafjárskattur og sömuleiðis fjármagnstekjuskattur tekjulægri hópa vegna verulegrar hækkunar frítekjumarks. Þetta tímabil var uppsöfnuð lækkun skatta og gjalda um 760 milljarðar á föstu verðlagi. Á móti voru skattar hækkaðir um 450 milljarða, mestmegnis bankaskattur og breytingar á virðisaukaskatti.

Skattahækkanir nýrrar ríkisstjórnar

Áform nýrrar ríkisstjórnar, róttækrar vinstristjórnar Kristrúnar Frostadóttur, eru hins vegar stórfelldar skattahækkanir. Vegið verður að samsköttun hjóna, nýtt kílómetragjald lagt á, skattar hækkaðir á einyrkja og litla atvinnurekendur með lokun meints „ehf.-gats“ og sveitarfélög verða þvinguð til að hækka útsvar sem mun hækka skatta hjá 95.000 einstaklingum. Að ekki sé talað um áform um að skerða áunninn ellilífeyri til að standa undir nýju og ósjálfbæru örorkukerfi. Vonandi verður látið á þau reyna fyrir dómstólum gangi þau eftir. Áunnin réttindi hjá lífeyrissjóðum eru varin af stjórnarskránni og ríkisstjórnin má ekki ráðstafa þeim í þágu annarra.

Vinstristjórnir hækka skatta og minnka kökuna

Það er gömul saga og ný að vinstristjórnir hækka skatta og álögur. Enda skilja forsvarsmenn þeirra ekki forsendur verðmætasköpunar og blómlegs atvinnulífs. Við þessu var að búast með vinstriflokka Samfylkingar og Flokks fólksins. Vonbrigðin eru öllu meiri með sjálfnefndan atvinnulífsflokkinn; Viðreisn. Eða hvað varð um heilög skilaboð Viðreisnar um að berjast gegn „ósjálfbærum ríkisfjármálum“ og loforð um að auka ekki skattheimtu á millistéttina?

En afraksturinn af sjálftöku vinstriflokka á verðmætasköpun og sjálfsaflafé landsmanna er ekki endilega digrari sjóðir ríkisins. Það sáum við glöggt í tíð síðustu vinstristjórnar þegar fólk og fyrirtæki flúðu einfaldlega skattpíninguna. Það er nefnilega ekki náttúrulögmál að skattgreiðendur láti hvað sem er yfir sig ganga – þeir geta einfaldlega farið annað.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sannarlega ekki ráðið öllu í samstarfi við aðra flokka í ríkisstjórn. En fólk og fyrirtæki munar um 310 milljarða í lægri sköttum sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk framgengt.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Diljá Mist Einarsdóttir