Andrea Sigurðardóttir
Kjartan Leifur Sigurðsson
Ríkisstjórnin nær aðeins tæpum helmingi mála sinna í gegn á þingi því sem fyrirhugað er að ljúki í dag. Auk þess munu ákvæði frumvarps er lúta að lækkun framlaga úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga sem fullnýta ekki álagningu útsvars falla á brott er frumvarpið verður afgreitt. Sem liður í samkomulagi um þinglok verður álit 1. minnihluta umhverfis- og samgöngunefndar [sjálfstæðis- og miðflokksmanna] um brottfall ákvæðanna samþykkt.
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir það baráttu stjórnarandstöðunnar að þakka að komið sé í veg fyrir umfangsmiklar skattahækkanir á almenning.
„Lög um jöfnunarsjóð verða afgreidd með breytingartillögu okkar sem kemur í veg fyrir skattahækkanir á 95.000 manns. Þetta er augljóslega niðurstaðan vegna varðstöðu stjórnarandstöðunnar,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.
Minna en helmingur mála
Af þeim 95 málum sem ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi verður tæplega helmingur afgreiddur, eða 43 mál. Sjö afgreidd mál eru endurflutt og 17 mál eru EES-innleiðingar, fullgilding fríverslunarsamninga, mál tengd Grindavík eða formsatriði.
Meðal annarra mála á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem falla niður eru tenging almannatryggingabóta við launavísitölu, bókun 35 við EES-samninginn, breyting á búvörulögum þar sem afturkalla átti undanþágur framleiðendafélaga frá samkeppnislögum sem lögleiddar voru í tíð fyrri ríkisstjórnar, greiðsla ríkisstyrkja til einkarekinna fjölmiðla á árinu sem felur m.a. í sér lækkun til tveggja stærstu fjölmiðlanna, bætt málsmeðferð og aukin skilvirkni á sviði orkumála, kílómetragjald, víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna, innleiðing á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og breyting varðandi gæludýrahald í fjöleignarhúsum.
Flokkur fólksins hlunnfarinn
Ljóst er að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra setti alla áherslu á að koma umdeildu veiðigjaldafrumvarpi í gegnum þingið, á kostnað flestra annarra mála sem ríkisstjórnin lagði upp með að kláruð yrðu á þessu þingi en falla nú niður.
Flokkur fólksins ber skarðan hlut frá borði en hann nær engum af áherslumálum sínum í gegn við þinglok, og þar svíður ljóslega mest að frumvarp sem ætlað var að tryggja strandveiðar í 48 daga í sumar fellur niður.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Flokks fólksins og framsögumaður strandveiðifrumvarpsins, skrifaði á samfélagsmiðla í gær að flokkurinn myndi leita allra leiða til að tryggja strandveiðar í 48 daga. Ekki náðist í Lilju Rafneyju til að fá nánari skýringar á orðum hennar í gær og Sigurjón Þórðarson formaður atvinnuveganefndar kvaðst upptekinn og sleit símtali er blaðamaður Morgunblaðsins kynnti sig.
Í frumvarpinu sjálfu kemur fram að ef frumvarpið nær ekki fram að ganga sé fyrirséð að strandveiðar verði stöðvaðar í júlí, þegar aflamagn til ráðstöfunar á strandveiðum verður að fullu nýtt. Leiða má að því líkur að strandveiðar verði ekki tryggðar í 48 daga án þess að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra taki ákvörðun um að fara á svig við lög.