Óli Björn Kárason
Óli Björn Kárason
Gleði stjórnarþingmanna eftir að hafa stöðvað umræðuna síðastliðinn föstudag var skammvinn. Loftið í blöðru ríkisstjórnarflokkanna hefur lekið út.

Óli Björn Kárason

Ráðherrar og þingmenn vinstristjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafa frá upphafi haldið því fram að ríkisstjórnin sé verkstjórn. Stefnan sé skýr og umboð óumdeilt. Fyrstu þrjár setningar í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar gefa tóninn: „Ný ríkisstjórn gengur samstíga til verka. Fyrsta verk er að ná stöðugleika í efnahagslífi og lækkun vaxta, með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins. Um leið mun ríkisstjórnin rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi.“

Rúmum sex mánuðum síðar hefur ríkisstjórnin komið litlu í verk. Stöðugleika í efnahagslífinu er ógnað, markmið um hallalaus fjárlög næst ekki á kjörtímabilinu, skattar eru hækkaðir, verðbólga er á uppleið, vextir lækka ekki og í atvinnulífinu halda menn að sér höndum í fjárfestingum ekki síst í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Strax voru hefðir og venjur þverbrotnar og meirihlutavaldi beitt ítrekað í fastanefndum þingsins. Tillitssemi vék fyrir þvermóðsku. Í krafti þess að hafa 50,4% atkvæða að baki sér hefur ríkisstjórnin talið sig hafa umboð til að keyra lagafrumvörp, sem eru illa unnin, í gegnum þingið og koma í veg fyrir eðlilega þinglega umfjöllun.

Skotgrafir gífuryrða

En kappið reyndist meira en forsjáin. Í fyrsta skipti í áratugi hafði forsætisráðherra ekki burði eða pólitíska yfirvegun til að semja um sómasamleg þinglok. Ráðherrar og liðsmenn ríkisstjórnarinnar á Alþingi töldu skynsamlegra að fara í skotgrafirnar en að hlusta og taka mark á rökstuddri gagnrýni. Gripið var til gífuryrða. Minnihlutinn á Alþingi var sakaður um tilraun til valdaráns! Nú stæði yfir „orrustan um Ísland“. Forsætisráðherra sagðist ætla að „verja lýðveldið Ísland“ gagnvart stjórnarandstöðunni. Daginn eftir beitti meirihlutinn 2. mgr. 71. gr. þingskapalaga og batt enda á umræðu um frumvarp um tvöföldun veiðigjalda. Þar með var málfrelsi tekið af þingmönnum í fyrsta skipti í nær 70 ár. Formaður atvinnuveganefndar fylgdi fast á eftir með hótunum um að aftur yrði gripið til þessa ákvæðis ef stjórnarandstaðan hagaði sér ekki í samræmi við kröfur ríkisstjórnarflokkanna. Valdboð í stað þingræðis.

Um það verður ekki deilt að lögum samkvæmt hefur meirihlutinn rétt á því að stöðva umræðu í þingsal líkt og gert var síðastliðinn föstudag. Alveg með sama hætti og stjórnarandstaðan á skýran og ótvíræðan rétt til að taka til máls – beita málþófi til að hindra framgang máls eða knýja ríkisstjórn til að gera breytingar á þingmáli. Málþóf er raunar óaðskiljanlegur hluti þingræðis enda hefur stjórnarandstaða lítil önnur úrræði til að hafa áhrif á gang mála.

Árið 2009 kom minnihluti í veg fyrir að Alþingi yrði svipt stjórnarskrárvaldinu af vinstristjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna. Tilraun ríkisstjórnarinnar til að þjóðnýta skuldir einkabanka og leggja þær á herðar skattgreiðenda var hrundið vegna harðrar stjórnarandstöðu sem var sökuð um að beita málþófi. Hefði tilraun ríkisstjórnarinnar tekist væri íslenskt launafólk enn að bogna undan þungum klyfjum.

Málþófið um veiðigjöldin leiddi í ljós hversu illa frumvarpið var unnið af hálfu ríkisstjórnar. Byggt var á röngum forsendum sem stöðugt var verið að leiðrétta. Og eftir að umræðan var stöðvuð taldi meirihluti atvinnuveganefndar sig tilneyddan til að leggja fram breytingatillögu fyrir lokaumræðu um að ákvæði frumvarpsins yrðu innleidd í skrefum.

Að ætla sér um of

Allar ríkisstjórnir hafa þurft að sætta sig við að ná ekki öllum sínum málum fram, a.m.k. ekki í fyrstu tilraun. Breytingar á útlendingalögum eru ágætt dæmi en fá lagafrumvörp hafa fengið jafn viðamikla umfjöllun, jafnt í þingsal og nefnd. Frumvarp þessa efnis var fyrst lagt fram í apríl 2019 og endurflutt ári síðar með nokkrum viðbótum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga og heldur ekki þegar það var lagt fram í þriðja sinn. Fjórða tilraun gekk heldur ekki. Það var ekki fyrr en í fimmtu tilraun sem tókst að afgreiða frumvarpið sem lög, eftir mikla umfjöllun nefndar, breytingar og raunar eftir töluvert málþóf. Það tók tvær tilraunir að setja heildarlög um landamæri. Þrátt fyrir þrjár tilraunir tókst þáverandi heilbrigðisráðherra ekki að tryggja framgang frumvarps til nýrra sóttvarnalaga. Dæmi eru fjölmörg.

Augljóst er að ríkisstjórnin ætlaði sér um of á yfirstandandi þingi og að koma of mörgum umdeildum og flóknum málum í gegn. Ráðherrar ætluðu ekki að sætta sig við annað en að stjórnarmál yrðu afgreidd eftir pöntunum. Stjórnarþingmenn höfðu ekki pólitískt sjálfstæði til að vinna að breytingum á frumvörpum eða tryggja vandaða og ítarlega umfjöllun. Þannig var reynt að breyta löggjafarsamkomunni í afgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að formaður atvinnuveganefndar kom í veg fyrir að veiðigjaldafrumvarpið fengi nauðsynlega efnislega umfjöllun í nefndinni og að gestir með sérþekkingu kæmu á fund nefndarinnar. Í stað þess að takast á við efnislega gagnrýni sakaði Kristrún Frostadóttir stjórnarandstöðuna um að ganga erinda „fjögurra til fimm fjölskyldna“. Forsætisráðherra velur dylgjur í stað þess að svara gagnrýni með málefnalegum hætti. Slíkt er háttur þess sem hefur vondan málstað að verja.

Pólitísk sjálfhelda

Það er vandasamt að leiða ríkisstjórn í lýðræðisríki. Yfirvegun og hæfileikinn til að hlusta, mæta ólíkum stjórnarmiðum, miðla málum og leiða ágreining í jörðu eru eiginleikar sem farsælir stjórnmálaforingjar búa yfir. Valkyrjum ríkisstjórnarinnar virðist fyrirmunað að koma til móts við þá sem eru þeim ekki sammála – allt skal vera á þeirra forsendum. Í pólitískri sjálfheldu er svo gripið til þess ráðs að beita þvingunum.

Í skugga valdbeitingar og hótana hefur þingforseti náð samkomulagi við alla þingflokka um að ljúka þinghaldi í dag, mánudag. Fjögur mál verða afgreidd; veiðigjöld, jöfnunarsjóður sveitarfélaga, fjármálaáætlun (sem er samkvæmt lögum) og veiting ríkisborgararéttar. Tæplega fimmtíu öðrum stjórnarmálum, jafnt vondum sem góðum, er fórnað. Vondu málin eru flest á kostnað Flokks fólksins, s.s. strandveiði og tenging greiðslna almannatrygginga við launavísitölu, sem ógnar sjálfbærni ríkisfjármála.

Gleði stjórnarþingmanna eftir að hafa stöðvað umræðuna síðastliðinn föstudag var því skammvinn. Loftið í blöðru ríkisstjórnarflokkanna hefur lekið út á fyrstu mánuðum „verkstjórnarinnar“.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason