Akureyri Von á góðu veðri nyrðra.
Akureyri Von á góðu veðri nyrðra. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er rakin sumarblíða og spáin er góð,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Vænta má sólarveðurs og hita um nánast allt land í dag, mánudag. Þarna ræður mestu að suður í Atlantshafi fyrir vestan Írland er hæð sem dæla mun heitu lofti að…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þetta er rakin sumarblíða og spáin er góð,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Vænta má sólarveðurs og hita um nánast allt land í dag, mánudag. Þarna ræður mestu að suður í Atlantshafi fyrir vestan Írland er hæð sem dæla mun heitu lofti að Íslandsströndum; það er hægum landvindi úr austri sem halda ætti að mestu mót hafgolu.

Hæsti hiti verður, að sögn Einars, sennilega á Suðurlandi og fyrir norðan og austan; til dæmis í Mývatnssveit og á Fljótsdalshéraði. Þar gæti hiti jafnvel farið í 28-29°C. Ósennilegt þykir þó að einstakt met frá árinu 1939 falli, það er þegar hiti á Teigarhorni við Berufjörð fór í 30,5°C. Veðurblíða þessi mun væntanlega haldast, að minnsta kosti út morgundaginn. Sums staðar ríkir dýrðin fram í miðja viku.

„Veðurspáin gefur okkur tilefni til að huga að öðrum slætti. Vonandi gefst þó kannski hálftími til að fara í sólbað,“ sagði Einar Gestsson, bóndi á Hæli í Hreppum á Suðurlandi.

„Einmitt núna er hér 24°C hiti og lífið alveg yndislegt í bongóblíðu,“ sagði Ásdís Erla Jóhannesdóttir, á Skútustöðum í Mývatnssveit, í samtali við Morgunblaðið síðdegis í gær. „Góð veðurspá hefur alltaf aðdráttarafl og þessa stundina er einmitt mikið af Íslendingum hér á ferðinni; fólk sem þá er gjarnan á húsbílum eða með fellihýsi. Í góðu veðri eru kvöldin hér í sveit falleg; þegar gígar og fjöll standa á haus og spegla sig í kyrru Mývatninu.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson