Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja þinglok, sem fyrirhuguð eru í dag, ekki koma til vegna eðlilegra og hefðbundinna samninga um þinglok. Mbl.is hafði eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni Sjálfstæðisflokksins í gær að það samkomulag sem náðist á…

Kjartan Leifur Sigurðsson

kjartanleifur@mbl.is

Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja þinglok, sem fyrirhuguð eru í dag, ekki koma til vegna eðlilegra og hefðbundinna samninga um þinglok.

Mbl.is hafði eftir Guðrúnu Hafsteinsdóttur formanni Sjálfstæðisflokksins í gær að það samkomulag sem náðist á endanum um þinglok væri frábrugðið því sem almennt tíðkaðist.

„Það var tillaga sem forseti Alþingis lagði til eftir að ríkisstjórnin hafði komið þinginu í algert óefni,“ sagði hún.

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknarflokksins tekur í sama streng.

„Ég lít ekki á þessi þinglok sem þinglokasamninga. Forseti þingsins lagði þessa niðurstöðu til og allir féllust á hana,“ segir Ingibjörg.

Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins er sammála Ingibjörgu og Guðrúnu um að ekki sé um hefðbundna þinglokasamninga að ræða.

„Það er eiginlega ekki hægt að kalla þetta þinglokasamninga, þetta var bara tillaga forseta,“ segir Bergþór um aðdraganda þingloka.

Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar fellst ekki á að samkomulagið sem náðist um þinglok sé frábrugðið því sem tíðkast almennt þegar samkomulag næst um þinglok.

„Tillagan sem forseti bar fram var niðurstaða sem flokkarnir þurftu að taka afstöðu til svo hægt væri að ljúka þingi. Ég sé ekki hvað það eigi að vera annað en þinglokasamningar,“ segir Guðmundur. Hann segir samkomulagið koma til vegna stífra fundarhalda stjórnar og stjórnarandstöðu.

„Það voru heilmiklir fundir á milli aðila á laugardaginn eins og ítrekaðar frestanir á þingfundi sýna fram á. Þetta voru bara samtöl á milli flokkanna sem enduðu svona,“ segir Guðmundur um aðdraganda þess að samkomulag náðist loks á laugardaginn.

Fyrirhugað er að fjögur mál verði afgreidd á þinginu í dag en þau eru lögbundin fjármálaáætlun, frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar, veiðigjaldafrumvarpið og frumvarp um jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Höf.: Kjartan Leifur Sigurðsson