Flutningar Ms. Lagarfoss, sem nú hefur verið seldur, í höfn á Sauðárkróki.
Flutningar Ms. Lagarfoss, sem nú hefur verið seldur, í höfn á Sauðárkróki. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Eimskip hættir á næstunni strandsiglingum til hafna á Vestfjörðum og Norðurlandi. Þetta gerist jafnhliða því að starfsemi kísilverksmiðju PPC á Bakka við Húsavík stöðvast, að minnsta kosti tímabundið, nú síðar í sumar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Eimskip hættir á næstunni strandsiglingum til hafna á Vestfjörðum og Norðurlandi. Þetta gerist jafnhliða því að starfsemi kísilverksmiðju PPC á Bakka við Húsavík stöðvast, að minnsta kosti tímabundið, nú síðar í sumar.

Rúmlega tvö ár eru síðan siglingar á ströndina voru settar inn í leiðakerfi Eimskips, það er vikulegar ferðir til og frá Reykjavík með viðkomu á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík. Þarna vógu flutningar frá iðjuverinu á Húsavík afar þungt.

„Siglingakerfið hefur, eins og við greindum frá í tilkynningu á dögunum, verið í mótun undanfarna mánuði,“ segir Harpa Hödd Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Eimskips.

Flutningar til og frá fyrrnefndum stöðum úti á landi, sem siglt hefur verið til, verða framvegis að mestu landleiðina, sbr. að í flutningum Eimskips á vegunum eru alls um 170 bílar. „Við tryggjum tengingu landsbyggðarinnar við millilandakerfi félagsins að sjálfsögðu áfram, það er með flutningum á landi,“ segir Harpa Hödd.

Fyrrgreindum breytingum fylgir að Eimskip hefur nú gengið frá sölu á ms. Lagarfossi jafnhliða því sem nokkru verður hnikað til í skipastól félagsins. Ms. Selfoss sem hefur verið í strandsiglingunum síðustu misseri fer nú í millilandasiglingar – á gulu leiðinni hvar eru Færeyjar, Bretland og Norðurlönd.

„Það er jákvætt að hugsa til þess að það er mun styttra í orkuskiptin í land- en sjóflutningum,“ segir Harpa Hödd. Hún leggur þó áherslu á að áfram muni skip frá Eimskip vera með beina þjónustu í nokkrum höfnum innanlands. Þar ræðir um Grundartanga, Vestmannaeyjar og Reyðarfjörð, þar sem sóttar eru afurðir af skipum sem eru á útleið til Evrópu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson