Kjartan Leifur Sigurðsson
kjartanleifur@mbl.is
Þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar eru sammála um að Flokkur fólksins beri skarðan hlut frá borði, samanborið við aðra stjórnarflokka, á þinginu sem fyrirhugað er að ljúka í dag.
Mál sem talin hafa verið meðal helstu áherslumála flokksins, eins og frumvarp sem tryggja átti 48 strandveiðidaga og frumvarp sem tengja átti bætur úr almannatryggingakerfinu við launavísitölu, verða ekki afgreidd á þessu þingi.
„Það er misjafnt á milli þingvetra hvernig mál raðast á milli flokka en það er augljóst að Flokkur fólksins ber skarðan hlut frá borði að þessu sinni,“ segir Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknarflokksins en Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins og Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins taka í sama streng.
Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar segist ánægður með árangurinn á þessu fyrsta þingi ríkisstjórnarinnar þótt hann hefði gjarnan viljað afgreiða fleiri mál. Hann telur ekki að Flokkur fólksins beri skarðan hlut frá borði enda hafi þau mál sem ekki fóru í gegnum þingið verið sameiginleg loforð allra ríkisstjórnarflokkanna.
Þingflokksformenn vonast til að samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu muni ganga vel að loknu sumarleyfi þrátt fyrir að 71. grein þingskapalaga hafi verið beitt í fyrsta sinn í 66 ár. Ljóst er þó að hvernig staðið var að þinglokum gæti haft áhrif til framtíðar.
„Ég er hræddur um að beiting 71. greinar muni hafa áhrif í langan tíma. Þetta var mjög vanhugsað hjá þeim. Ég skil ekki af hverju þessi ákvörðun var tekin,“ segir Bergþór.
Guðmundur Ari segir ekki ljóst hvaða mál ríkisstjórnin muni setja í forgang á næsta þingi. Bergþór telur að umræða um aðildarviðræður við Evrópusambandið gæti orðið áberandi.
„Ég hef áhyggjur af því að mikill fókus verði settur á Evróputengd mál. Ég tel að aðlögunarviðræður verði komnar í forgrunn í haust,“ segir Bergþór.