Maður sem réðst á annan mann með hnífi á bílastæði við Mjódd á föstudagskvöld hefur verið úrskurðaður í tæplega vikulangt gæsluvarðhald. Árásarmaðurinn er á þrítugsaldri. Karlmaður á fertugsaldri er alvarlega slasaður eftir árásina.
Fimm voru handteknir eftir að hleypt var af byssu á lúxushótelinu Svörtu Perlunni við Tryggvagötu í miðborg Reykjavíkur á föstudagskvöld. Mikill viðbúnaður var í Tryggvagötu vegna þessa. Lögregla lokaði götunni og sást til sérsveitarmanna sækja mann inn á hótelið. Skýrslur voru teknar af mönnunum og þeim hefur verið sleppt úr haldi. Mennirnir eru Íslendingar. Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn gat ekkert sagt til um í hvaða erindagjörðum mennirnir voru á hótelinu, né um hvers konar skotvopn var að ræða eða hvar þeir fengu það.
Fjórtán ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna frá því síðdegis á laugardegi og fram á sunnudagsmorgun. Í einu máli voru höfð afskipti af ökumanni sem var ölvaður með barn í bílnum. Barnavernd gerði ráðstafanir með barnið og var ökumaður laus eftir blóðsýnatöku.