Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), kemur til Íslands í vikunni og fundar með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Heimsóknin stendur frá miðvikudegi til föstudags.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að staða alþjóðamála, öryggis- og varnarmál, viðskiptamál, almannavarnir og loftslagsmál verði í brennidepli og taki dagskrá heimsóknarinnar mið af því.
Fundur von der Leyen með forsætisráðherra og utanríkisráðherra fer fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, en hún hyggst sömuleiðis kynna sér starfsemi almannavarna sem og áfallaþol á Íslandi í heimsókn til Grindavíkur, þar sem hún fer jafnframt í skoðunarferð um varnargarðana í Svartsengi. Þá er heimsókn í þjóðgarðinn á Þingvöllum einnig á dagskrá forseta framkvæmdastjórnar ESB.