Egill Aaron Ægisson
egillaaron@mbl.is
Þingi hefur verið slitið og er Alþingi komið í sumarfrí til 9. september. Eitt af síðustu verkum þingsins í gær var að samþykkja frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra um breytingar á veiðigjöldum.
Ekkert frumvarp hefur verið meira rætt síðan Alþingi var sameinað í eina málstofu árið 1991, og fór svo að beitt var 71. grein þingskapalaga. Sú ákvörðun leiddi til þess að annarri umræðu um málið var hætt og því beint til atkvæðagreiðslu.
Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði í gær í sérstakri yfirlýsingu fyrir hönd flokka stjórnarandstöðunnar að framganga Þórunnar Sveinbjarnardóttur forseta Alþingis þegar hún beitti ákvæðinu hefði valdið trúnaðarbresti á milli stjórnarandstöðunnar og forseta þingsins. Þá kæmist stjórnarandstaðan ekki hjá því að líta svo á að Þórunn væri fyrst og fremst forseti meirihlutans en ekki alls þingsins.
Í samtali við Morgunblaðið segist Hanna Katrín Friðriksson nú binda vonir við að samþykki frumvarpsins mæti þeim vaxandi þunga í gagnrýni fólks sem hún segir lúta að því að þjóðin beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að gjaldi fyrir nýtingu þjóðarauðlindarinnar.
Þá bindi hún einnig vonir við að með samþykkinu skapist ákveðin ró í sjávarútveginum og að hægt verði nú að ræða önnur mál sem brenni á atvinnugreininni.
Spurð um þau viðbrögð sem frumvarpið fékk frá stjórnarandstöðunni segir Hanna Katrín þau ekki endilega hafa komið á óvart. Umræður um fyrri mál hafi gefið tóninn fyrir hvernig stjórnarandstaðan myndi nálgast stjórnarmál meirihlutans.
„Það þarf kannski að koma einhver fjarlægð á málið til að átta sig á því hvað af þessu málþófsmeti sem þarna var slegið hafi raunverulega snúist um veiðigjöldin og hvað snerist í raun bara um átök á milli meirihluta og minnihluta,“ segir ráðherrann.
Eitt af þeim frumvörpum sem ekki náðist að afgreiða fyrir þinglok var frumvarp sem ætlað var að tryggja 48 strandveiðidaga, og segir Hanna Katrín það vera miður að frumvarpið hafi ekki fengið hljómgrunn hjá minnihlutanum í þinglokaviðræðunum.
Ákall hefur verið um að auka strandveiðiheimildir og segist ráðherrann vera að láta skoða hvort einhverjar leiðir séu færar til að verða við því ákalli. Aðspurð segir hún það skýrast á næstunni, en erfitt sé að segja til um hvenær nákvæmlega svörin berist.