Blaðlaus Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mætti blaðlaus í pontu og vakti ræða hans um veiðigjöld mikla athygli, enda var hann ómyrkur í máli.
Blaðlaus Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mætti blaðlaus í pontu og vakti ræða hans um veiðigjöld mikla athygli, enda var hann ómyrkur í máli. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þingi var í gær frestað fram til 9. september. Þinglokin eru söguleg fyrir ýmsar sakir, en öðru fremur þá staðreynd að kjarnorkuákvæði þingskapalaga var í fyrsta skipti beitt svo áratugum skiptir, til þess að stöðva umræður um veiðigjöld

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Þingi var í gær frestað fram til 9. september. Þinglokin eru söguleg fyrir ýmsar sakir, en öðru fremur þá staðreynd að kjarnorkuákvæði þingskapalaga var í fyrsta skipti beitt svo áratugum skiptir, til þess að stöðva umræður um veiðigjöld.

Beiting kjarnorkuákvæðisins setti svip sinn á lokadag þingsins og ef marka má orð stjórnarandstæðinga sem féllu í pontu Alþingis í gær mun beiting ákvæðisins setja mark sitt á allt kjörtímabilið og áhrifa þess jafnvel gæta enn lengur.

Að undanskilinni frestun þings voru fjögur mál á dagskrá: Veiðigjöld, fjármálaáætlun 2026-2030, jöfnunarsjóður sveitarfélaga og veiting ríkisborgararéttar til 50 einstaklinga.

Þingfundur hófst á framhaldi 3. umræðu um veiðigjöld. Þar kvöddu sér hljóðs formenn stjórnarandstöðuflokkanna þriggja – Guðrún Hafsteinsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokk, Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir Framsóknarflokk og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrir Miðflokk – auk Bergþórs Ólasonar þingflokksformanns Miðflokks sem mælti fyrir áliti og breytingartillögu minnihluta atvinnuveganefndar.

Verði ríkisstjórninni að falli

Öll voru þau, eins og við var að búast, afar gagnrýnin á frumvarpið og beitingu kjarnorkuákvæðisins til að stöðva umræðu um málið. Boðskapur þeirra kjarnaðist í lokaorðum Sigmundar Davíðs. Hann sagði frumvarpið myndu koma aftur til umræðu á þingi þegar áhrif þess kæmu fram.

„Þá munu háttvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar tala út frá innihaldi málsins, tala um störfin, byggðirnar, tekjurnar af sjávarútvegi og það sem glatast hefur vegna óstjórnar þessarar ríkisstjórnar sem hugsar bara um eitt: eigin ímynd.“

Sigmundur spáir því að ímynd ríkisstjórnarinnar muni, þegar áhrifin verða ljós, skaðast, og taldi ljóst að ríkisstjórnin hefði með vegferð sinni einkum horft til þess að afla sér vinsælda.

„Það var vísað í skoðanakannanir. Það var vísað í það að þetta væri leiðin fyrir ríkisstjórnina til að gera það sem fólk vildi. Með öðrum orðum, þetta var leiðin fyrir okkur ríkisstjórnina til að verða vinsælli. Þegar öllu verður á botninn hvolft, þá mun þetta mál og hvernig á því var haldið hér á Alþingi verða þessari ríkisstjórn að falli,“ sagði hann að lokum.

Alvarlegur trúnaðarbrestur

Yfirlýsing sem Hildur Sverrisdóttir flutti fyrir hönd þingflokka stjórnarandstöðu undir lok þingsins vakti mikla athygli en þar sagði hún Þórunni Sveinbjarnardóttur forseta Alþingis hafa gerst seka um trúnaðarbrest og sagði hana vera forseta meirihlutans, en ekki þingsins alls.

„Framganga hæstvirts þingforseta með beitingu 71. gr. þingskapalaga með fordæmalausum hætti án nokkurrar umræðu þar um skapaði trúnaðarbrest á milli stjórnarandstöðunnar og forseta. Valdbeiting kallar á viðbrögð og varkárni þess sem verður fyrir henni.“

Hún sagði forseta hljóta að hafa verið ljóst að sú ákvörðun væri ekki án afleiðinga, hún myndi lita samskipti og setja svip á þinghald kjörtímabilsins.

„Hér varð alvarlegur trúnaðarbrestur á milli stjórnarandstöðunnar og forseta og við komumst ekki hjá því að líta svo á að forseti sé fyrst og fremst fulltrúi meirihlutans, en ekki forseti alls þingsins.“

Var það í takt við málflutning annarra stjórnarandstæðinga sem tóku til máls á fundinum og samtöl Morgunblaðsins við þingmenn, en reynslumeiri þingmenn hafa spáð því að það muni taka tvö til þrjú kjörtímabil að vinda ofan af áhrifum þeim er beiting kjarnorkuákvæðisins er sögð munu hafa.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir