Bjargtangar Horft að ljósvita og rafstöðvarhúsi á vestasta odda Íslands. Nýju bílastæðin verða fjær, utan þess ramma sem hér sést á myndinni.
Bjargtangar Horft að ljósvita og rafstöðvarhúsi á vestasta odda Íslands. Nýju bílastæðin verða fjær, utan þess ramma sem hér sést á myndinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafist verður handa í haust við gerð nýrra bílastæða við Bjargtanga út við Látrabjarg. Hönnun er lokið og framkvæmdaleyfi, gefið út af Vesturbyggð, er í hendi. Nýju stæðin verða nokkru innar í landinu en núverandi stæði, svo í framtíðinni þarf að…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Hafist verður handa í haust við gerð nýrra bílastæða við Bjargtanga út við Látrabjarg. Hönnun er lokið og framkvæmdaleyfi, gefið út af Vesturbyggð, er í hendi. Nýju stæðin verða nokkru innar í landinu en núverandi stæði, svo í framtíðinni þarf að ganga ofurlítinn spöl út að bjargbrún, en núverandi stæði eru mjög nærri því.

Fyrirætlan Náttúruverndarstofnunar er að útbúa 31 bílastæði fyrir fólksbíla, fjögur rútustæði og tvö fyrir smárútur og ferðabíla. Framkvæmdin er í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Draga úr álagi

„Þetta er allt gert til draga úr umhverfisálagi við Bjargtanga. Bílastæðin nýju verða um 300 metra frá þeim stað sem nú er, en áfram verður hægt að aka út að vitanum sem þarna er,“ segir Jón Björnsson, svæðislandvörður á sunnanverðum Vestfjörðum. Landverðir sinna þessu svæði, hópur sem Jón er í forsvari fyrir. Landvarsla er einnig í Vatnsfirði og í friðlandinu við Dynjanda, þar sem hinn svipsterki og fallegi Fjallfoss er í öndvegi.

Talið er að á bilinu 50-60 þúsund manns komi að Látrabjargi á sumri hverju. Leiðin þangað liggur úr botni Patreksfjarðar og þar svo með firðinum sunnanverðum og fyrir Hafnarmúla. Svo áfram yfir heiðar, að Hvallátrum, um Látravík og fyrir Brunnanúp og þar út á bjarg.

Umrædd leið er um 50 kílómetrar, ruddavegur á köflum en unnið er að úrbótum. Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Í bjarginu er stærsta álkubyggð í heimi í Stórurð. Þarna verpa tíu sjófuglategundir og algengastar eru álka, langvía, stuttnefja, rita, fýll og lundi, segir á vef Vestfjarðastofu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson