Kjartan Leifur Sigurðsson
kjartanleifur@mbl.is
Fimmtíu manns hlutu íslenskan ríkisborgararétt þegar frumvarp allsherjar- og menntamálanefndar var samþykkt í gær á Alþingi. 248 umsóknir bárust nefndinni.
Meðal þeirra sem hlutu ríkisborgararétt er kólumbíski drengurinn Oscar Bocanegra en fyrr á árinu stóð til að vísa Oscari úr landi. Kristín Völundardóttir forstjóri Útlendingastofnunar féllst á að stöðva brottflutninginn eftir að Víðir Reynisson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, fullvissaði hana um að Oscar myndi hljóta ríkisborgararétt.
Nadya Tolokonnikova, stofnandi rússneska andófshópsins og hljómsveitarinnar Pussy Riot, hlaut einnig ríkisborgararétt en tvær liðskonur sveitarinnar hlutu ríkisborgararétt samkvæmt tillögu nefndarinnar árið 2023.
Átta íþróttamenn sem leikið hafa á Íslandi síðastliðin ár hlutu einnig ríkisborgararétt. Einn þeirra er úkraínski handknattleiksmaðurinn Ihor Kopyshynski sem leikið hefur í stöðu hornamanns með Aftureldingu frá árinu 2022 og þar á undan með Haukum.
Sjö körfuknattleiksmenn hlutu ríkisborgararétt en þeir eru eftirtaldir: Cedrick Bowen, Davis Geks, David Ramos, Isaiah Coddon, Jaka Brodnik, Mario Matasovic og Nemanja Knezevic.
David Geks, sem fæddist í Lettlandi, varð Íslandsmeistari með liði Tindastóls árið 2023.
Fæðingarstaðir
Flestir þeir sem hljóta ríkisborgararétt eru fæddir í Írak, eða 15 talsins.
Næstflestir eru fæddir hér á Íslandi, eða sjö talsins.
Fimm eru fæddir í Bandaríkjunum, þar af tveir körfuknattleiksmenn.
Þrír eru fæddir í Rússlandi, þar á meðal liðskona hljómsveitarinnar Pussy Riot.