Hlaupa Jakkaföt og hlaupaskór sameinast í 420 kílómetra hlaupi.
Hlaupa Jakkaföt og hlaupaskór sameinast í 420 kílómetra hlaupi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hlaupahópurinn HHHC Boss hyggst hlaupa sex maraþon á jafnmörgum dögum í ágúst. Hópurinn hefur vakið athygli síðustu ár fyrir hlaup sín til styrktar góðum málefnum, en ekki síður fyrir góðan klæðaburð

Hlaupahópurinn HHHC Boss hyggst hlaupa sex maraþon á jafnmörgum dögum í ágúst. Hópurinn hefur vakið athygli síðustu ár fyrir hlaup sín til styrktar góðum málefnum, en ekki síður fyrir góðan klæðaburð.

Fyrir tveimur árum hlupu allir liðsmenn hópsins jakkafataklæddir frá Akureyri til Reykjavíkur og nú endurtaka þeir leikinn, en í þetta sinn fara þeir frá Akureyri, yfir hálendið og Kjöl og þaðan til Reykjavíkur.

Kveðja malbikið

Pétur Ívarsson, einn af 21 hlaupara HHHC Boss, segir allt lagt í sölurnar fyrir góðan málstað. „Slagorð hópsins er „Við elskum malbik“, en við víkjum meira að segja frá því fyrir gott málefni.“

Hópurinn leggur af stað 18. ágúst en þá tekur við sex daga áskorun þar sem hver og einn hlaupari hleypur vegalengd sem samsvarar maraþoni á hverjum degi. Þeir hlaupa þó á víxl í tveimur hollum, þar sem hvort holl hleypur rúmlega tíu kílómetra í senn. Lokahnykkurinn verður svo í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hópurinn hleypur síðustu kílómetrana af samtals 420 kílómetra löngu verkefninu.

Til styrktar Krafti

Hlaupið er til styrktar stuðningsfélaginu Krafti og er tileinkað öllum ungum fjölskyldum sem hafa þurft að glíma við krabbamein. Ríflega átta milljónir króna söfnuðust fyrir hlaup HHHC Boss fyrir tveimur árum, en Pétur segir markmiðið í ár vera að ná tíu milljónum.

Þá verður hlaup hvers dags tileinkað einum einstaklingi sem notið hefur góðs af starfi Krafts.