Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Tæplega 730 manns höfðu í gær ritað nafn sitt undir mótmæli við fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar á Birkimel 1 í Reykjavík, en undirskriftalistinn er aðgengilegur á Island.is.
Stofnun hagsmunasamtaka fyrir þennan borgarhluta er í undirbúningi og er kveikjan að stofnun hans óánægja meðal íbúa vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni. Ætlun borgaryfirvalda er að breyta henni úr þjónustulóð í lóð fyrir íbúðahúsnæði. Áformin hafa sætt talsverðri gagnrýni í umsögnum sem fram hafa komið og eru þær allar neikvæðar í garð fyrirhugaðra framkvæmda. M.a. er hæð væntanlegrar byggingar gagnrýnd, en hún á að verða ríflega 19 metrar og ósamrýmanleg íbúðabyggðinni í nágrenninu.
Í samtali við Morgunblaðið segir Örn Þór Halldórsson, arkitekt sem látið hefur sig málið varða, að stefnt sé að formlegri stofnun hagsmunasamtakanna í lok ágúst eða byrjun september. Skort hafi á samtal við almenning í málinu.
Segir hann að ætlunin sé að bjóða fulltrúum Háskólans til fundarins auk fleiri hagsmunaaðila en nefna má að auk Háskóla Íslands hafa Stofnun Árna Magnússonar, Landsbókasafnið og Félagsstofnun stúdenta mótmælt fyrirhuguðum breytingum á skipulaginu. Stendur vilji þeirra til að reiturinn við Birkimel verði helgaður háskólanum og öðrum menningarstofnunum.
Tilganginn með fundinum segir Örn Þór m.a. vera þann að draga fram öll þau sjónarmið sem varða fyrirhugaða uppbyggingu við Birkimel.
Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er nálægð við aðra íbúðabyggð á svæðinu, neikvæð áhrif á birtuskilyrði og skortur á bílastæðum. Lóðin sé á skipulagssvæði mennta- og menningarstofnana en ekki íbúðabyggðar og gangi í þokkabót gegn samþykktu aðalskipulagi.
Í einni af umsögnum íbúa í námunda við Birkimelslóðina er fyrirhuguð bygging kölluð „Gráa gímaldið“. Segir þar að byggingin sé á grónu háskólasvæði og ekki í neinum samhljómi við aðrar byggingar á svæðinu. Byggingin sé stílbrot, risastór, byggð ofan í götu og muni „leggjast með sínum yfirþyrmandi gráa þunga yfir vegfarendur og íbúa í næstu húsum með tilheyrandi skuggavarpi. Ekki er annað hægt en að líkja byggingunni við „Græna gímaldið“ umtalaða sem reist var í Álfabakka og því næsta óafturkræfa skipulagsslys,“ segir þar.
Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur fram í byrjun september.