Við Skeifuna Skrifstofuturninn á Grensásvegi 1 er vinstra megin á myndinni en Orkureiturinn hægra megin.
Við Skeifuna Skrifstofuturninn á Grensásvegi 1 er vinstra megin á myndinni en Orkureiturinn hægra megin. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Þór Hjaltason, eigandi og framkvæmdastjóri Miðjunnar, segir merki um að óvissa í efnahagsmálum hafi áhrif á eftirspurn á fasteignamarkaði. Jón Þór fylgist vel með markaðnum en hann er nú með í sölu íbúðir á Grensásvegi 1 og er þar jafnframt að…

Baldur Arnarson

baldurambl.is

Jón Þór Hjaltason, eigandi og framkvæmdastjóri Miðjunnar, segir merki um að óvissa í efnahagsmálum hafi áhrif á eftirspurn á fasteignamarkaði.

Jón Þór fylgist vel með markaðnum en hann er nú með í sölu íbúðir á Grensásvegi 1 og er þar jafnframt að leigja út atvinnuhúsnæði á jarðhæðum og í nýjum skrifstofuturni.

Jón Þór segir að búið sé að innrétta og afhenda tvær efstu hæðirnar í skrifstofuturninum, sem er gegnt Glæsibæ, en búið var að ganga frá þessum leigusamningum þegar Morgunblaðið ræddi við hann í byrjun mars í ár.

Þegar það viðtal fór fram var Jón Þór jafnframt búinn að selja 120 af 167 íbúðum í aðliggjandi fjölbýlishúsum en 14 íbúðir áttu þá að koma á markað til viðbótar um páskana. Vegna aðstæðna hefur hann leigt út 10 íbúðir og frestað afhendingu síðustu íbúðanna fram á haustið en suðurendi þess húss snýr að Skeifunni.

Hafa skapað óvissu

Jón Þór segir óvissu í efnahagsmálum á Íslandi, og raunar um heim allan, hafa sitt að segja. Umræða um veiðigjöld á Íslandi og tollahækkanir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hafi haft áhrif á væntingar. Þá hafi væntingar um vaxtalækkanir ekki gengið eftir.

„Mér finnst margir vera í biðstöðu. Vextir eru enn háir og sennilega eru menn að bíða eftir að þeir lækki. Meginvextir Seðlabankans þyrftu að lækka í 6,5-7%,“ segir Jón Þór en meginvextirnir eru nú 7,5%.

„Það ber einnig að taka tillit til þess að nú er hásumar og margir í sumarfríi en það hefur alltaf sitt að segja,“ segir Jón Þór og vekur athygli á því að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við loforð í húsnæðismálum. Nánar tiltekið hafi það ekki gengið eftir sem Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra boðaði í kosningabaráttunni, að heimila lengri lánstíma á fasteignalánum til ungs fólks.

Nánar tiltekið vísar hann til þess að peningastefnunefnd Seðlabankans kynnti um miðjan júní 2022 nýjar reglur. Með þeim var hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur lækkað úr 90% í 85%. Þá ákvað nefndin meðal annars að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár.

Fleiri gætu þá keypt

„Það er með ólíkindum að þegar fólk er að fara að kaupa sér íbúð og fer í greiðslumat þá er alltaf miðað við að það borgi upp eignirnar á 25 árum,“ segir Jón Þór. „Ef greiðslutíminn væri 40 ár myndu miklu fleiri komast í gegnum greiðslumatið. Ég veit ekki betur en að þannig sé fyrirkomulagið annars staðar á Norðurlöndum. Þessar hörðu kröfur Seðlabankans eru enn að bíta. Þvert á loforð hefur ekki verið losað um neinar kröfur,“ segir Jón Þór.

„Fréttir af fasteignamarkaði eru flestar mjög neikvæðar en það dregur úr vilja ungs fólks til að stíga sín fyrstu skref út á markaðinn. Hins vegar eru góð kauptækifæri núna, enda mikið framboð af nýjum íbúðum sem eru vel staðsettar og munu örugglega hækka í verði þegar byggingaraðilar þurfa að taka tillit til fjármagnskostnaðar í lok sölutímans. Almennt er reiknað með að vextir lækki og því ættu lántakendur að gæta þess að festa ekki vextina,“ segir Jón Þór.

Atvinnurými á jarðhæð

Á Grensásvegi 1 eru jafnframt átta atvinnurými á jarðhæð aðliggjandi fjölbýlishúsa og segir Jón Þór búið að leigja út þrjú þeirra. Þau eru ætluð undir verslanir og þjónustu.

Alls eru þetta um 4.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði. Turninn er um 2.900 fermetrar og atvinnurýmin á jarðhæð Grenásvegar 1a, b og c um 1.100 fermetrar.

Uppbyggingin hófst árið 2020 og kom fyrsta fjölbýlishúsið, Grensásvegur 1d og 1e, í sölu haustið 2021. Uppbyggingunni er nú að ljúka en verið er að leggja lokahönd á síðasta húsið, á Grensásvegi 1c, suðaustast á lóðinni.

Samnýttur bílakjallari

Á Grensásvegi 1 verður 181 íbúð og atvinnuhúsnæði á hluta jarðhæða fjölbýlishúsanna og í skrifstofuturni.

Undir húsunum er kjallari með 183 bílastæðum og 300 fermetra hjólageymsla.

Leigja þarf bílastæði í kjallara en þau eru samnýtt með starfsfólki og gestum atvinnuhúsnæðisins.

Eldri hús á lóð voru rifin.

Höf.: Baldur Arnarson