Sagnfræðingur Catherine Coreless við heimilið í Tuam á Írandi.
Sagnfræðingur Catherine Coreless við heimilið í Tuam á Írandi. — AFP/Paul Faith
Uppgröftur á fjöldagröf í Tuam á vesturhluta Írlands hófst í gær en talið er að hátt í 800 börn hafi látist á heimilinu. Kaþólskar nunnur ráku þar fæðingarheimili fyrir ófrískar konur á árunum 1925 til 1961

Uppgröftur á fjöldagröf í Tuam á vesturhluta Írlands hófst í gær en talið er að hátt í 800 börn hafi látist á heimilinu. Kaþólskar nunnur ráku þar fæðingarheimili fyrir ófrískar konur á árunum 1925 til 1961. Á heimilinu fengu inni konur sem urðu barnshafandi utan hjónabands og fjölskyldur þeirra höfðu úthýst þeim.

Eftir að konurnar fæddu börn sín á heimilinu bjuggu börnin oft lengur þar, en meirihluti barnanna var þó ættlæddur. Slík heimili voru starfrækt af kaþólsku kirkjunni víða á Írlandi og þeim síðustu var lokað árið 1998.

Lögreglan á Írlandi hefur haft málið til rannsóknar undanfarin ár, en árið 2014 leiddi rannsókn sagnfræðingsins Catherine Corless í ljós að 796 börn, allt frá nýburum til níu ára, hefðu látist í Tuam. Sýni voru tekin úr rotþró í Tuam árin 2016-2017 og í ljós komu líkamsleifar fjölda barna.

Rannsóknir lögreglu síðustu ára, sem hófust í kjölfar rannsóknar Corless, hafa leitt í ljós að allt að 56 þúsund ógiftar konur og 57 þúsund börn hafi á einhverjum tímapunkti verið á 18 slíkum heimilum á Írlandi, yfir 76 ára tímabil. Þá hefur komið í ljós að allt að níu þúsund börn hafa látist á slíkum heimilum sem voru rekin af kaþólsku kirkjunni og af ríkinu.

Coreless komst að því í rannsókn sinni að líkum barnanna hefði að öllum líkindum verið komið fyrir í hinni ónotuðu rotþró. Skráð banamein barnanna eru ólík, allt frá mislingum til berkla og kíghósta, að því er fram kemur í dánarvottorðum sem hún safnaði saman fyrir rannsóknina.

„Þetta hefur verið hörð barátta. Þegar ég byrjaði á þessu vildi enginn hlusta. Loksins erum við að leiðrétta ranglætið sem þessi börn urðu fyrir,“ sagði Corless við AFP í maí.