Björn Diljan Hálfdanarson
bdh@mbl.is
Skoski rithöfundurinn og skáldið Ian Stephen lét gamlan draum verða að veruleika í sumar þegar hann sigldi til Íslands á seglskútunni Silver Moon ásamt syni sínum Sean og tveimur öðrum. Lagt var af stað frá Stornoway á eyjunni Lewis í Skotlandi fyrir um tveimur vikum og hefur ferðin gengið vonum framar. Áhöfnin er nú stödd á Húsavík, sem var aðaláfangastaður ferðarinnar, en þeir stefna að því að sigla hringinn í kringum landið, ef aðstæður leyfa.
„Við urðum að bíða í rúma viku áður en við gátum lagt af stað frá Skotlandi vegna veðurtruflana, en síðan þá hefur veðrið verið nánast fullkomið,“ segir Sean í samtali við Morgunblaðið.
Strákarnir lentu í smáþoku á leið til landsins en engin stórvægileg vandamál hafa komið upp að sögn Ians og lýsir hann fallegri stund við komuna til landsins. „Við erum fjórir um borð og vorum að sigla í gegnum þokuna á leið til Austfjarða. Allt í einu hvarf þokan og við okkur blasti þetta fallega land. Við trúðum varla okkar eigin augum,“ segir hann.
Mikill undirbúningur
Ferðin hefur verið í undirbúningi í meira en ár að sögn þeirra feðga. „Fyrst þurftum við að kaupa bát, flytja hann á réttan stað og gera hann upp,“ segir Sean en þeir feðgar skiptu verkefnunum á milli sín; Sean sá um að gera upp aftari hluta bátsins en Ian sá um þann fremri. „Veturinn hefur mestmegnis farið í að skipuleggja ferðina og útvega þau leyfi sem þörf er á,“ bætir hann við.
Ian segir undirbúninginn hafa gengið vel og að þeir feðgar vinni afar vel saman. „Hæfileikar okkar liggja á mismunandi sviðum og þannig bætum við hvor annan upp,“ segir Ian. Hann segir Sean og félaga hans taka á sig mikið af þeirri líkamlegu vinnu sem felst í svona ferð á meðan hann notar krafta sína meðal annars til að stýra skipinu og lesa úr kortum.
Það sem hefur komið þeim feðgum mest á óvart í ferðinni er veðrið. Þeir segja veðrið hafa verið mun betra en þeir bjuggust við og þeir hafi þurft að nota vél bátsins mun meira en búist var við sökum þess hve mikið logn hefur verið á sjó. „Það lítur út fyrir að við höfum fengið besta veður sem Ísland býður upp á,“ segir Sean.
Ef veðurskilyrði leyfa vilja þeir endilega ná að sigla hringinn í kringum landið áður en haldið verður heim. „Það væri frábært að sjá eins mikið af landinu og hægt er, Vestfirðirnir eru afar spennandi og Vestmannaeyjar og saga þeirra sömuleiðis,“ segir Ian.
Heimsækja fjölskylduna
Meginmarkmiði ferðarinnar hefur þó verið náð: að sigla til Húsavíkur og heimsækja fjölskylduna þar. „Föðursystir mín flutti hingað á áttunda áratugnum og við pabbi höfum heimsótt þau nokkrum sinnum, draumurinn hefur þó alltaf verið að feta í fótspor víkinganna og sigla þessa ævafornu leið frá Skotlandi til Íslands,“ segir Sean.
Daniel Annisius, sem er búsettur á Húsavík, er skyldur þeim feðgum og segir það hafa verið mikið gleðiefni að fá þá til landsins. Daniel vinnur hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants á Húsavík og hjálpuðu þeir feðgunum að skipuleggja ferðina. „Við fórum á einum RIB-bát frá Gentle Giants og tókum á móti þeim þegar þeir sigldu inn Skjálfanda,“ segir Daniel. „Þetta var stórt og gaman og þarna var stór draumur að verða að veruleika,“ bætir hann svo við.
Sjónarspil á Skjálfanda
Þeir feðgar fengu mikla sýningu við Mánáreyjar við Tjörnes að sögn Daniels. „Það voru tíu hnúfubakar alveg upp við bátinn og einnig hrefnur, þetta var mikið sjónarspil. Ég sagði þeim bara að þetta væri alltaf svona á Húsavík,“ segir hann og hlær.
Ian og Sean halda nú ferðinni áfram og er förinni heitið á Vestfirði. Framhaldið fer svo eftir veðri.