Einar Hugi Bjarnason
Stjórnlaganefnd, stjórnlagaráð og stjórnarskrárnefnd sem skipuð var árið 2013 hafa lagt til að farvegur verði skapaður fyrir kjósendur til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál. Þrátt fyrir að margir hafi ljáð máls á mikilvægi aukinnar aðkomu almennings að ákvarðanatöku í samfélaginu hefur það ekki orðið til þess að breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni hvað þetta varðar.
Þess í stað er enn í gildi 26. grein stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að forseti geti synjað lagafrumvarpi staðfestingar, sem fær þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði kosningabærra manna í landinu. Lengst af var þessi lagabókstafur óvirkur og var ekki beitt í sextíu ár, en það breyttist í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Það sem ekki hefur breyst er að ákvæðið er að mörgu leyti óljóst, þ.m.t. hvort öll lagafrumvörp geti fallið undir ákvæðið, hvort þingsályktunartillögur eða aðrar ályktanir Alþingis geti fallið undir það, hvort það sé skilyrði að ákveðinn fjöldi kosningabærra manna þurfi að skora á forseta til að virkja réttinn og þá hversu margir o.s.frv.
Í mínum huga er ótvírætt ákjósanlegra að færa málskotsréttinn frá forseta Íslands til þjóðarinnar sjálfrar, enda er það hið tærasta form lýðræðis. Með þessu væri unnt að skilgreina málskotsréttinn með nákvæmum hætti, þ.m.t. hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að virkja réttinn í stað þess að beiting hans sé háð mati eins einstaklings á hverjum tíma, þess sem gegnir embætti forseta Íslands.
Eigi þjóðin sjálf að fara með þetta vald í stað forseta þarf að breyta stjórnarskránni og afnema 26. greinina en í hennar stað kæmi nýtt ákvæði í stjórnarskrá sem kvæði um um rétt kjósenda til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu sambandi er að mörgu að hyggja. Þannig þarf t.d. að ákveða hversu stórt hlutfall kosningabærra manna þurfi til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort einhver lög eigi að vera undanþegin og hversu hátt hlutfall þurfi til að synja lögum samþykkis.
Vel mætti hugsa sér að unnt væri að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur með undirskriftum tíu til fimmtán af hundraði kosningabærra manna. Reynslan sýnir að raunhæft er að safna slíkum fjölda undirskrifta á tiltölulega skömmum tíma þegar um umdeild mál er að ræða. Sem dæmi má nefna að tæplega 32 þúsund undirskriftir bárust forseta Íslands vegna fjölmiðlalaga árið 2004, rúmlega 56 þúsund vegna Icesave I og rúmlega 40 þúsund vegna Icesave III.
Til að hnekkja lögum er augljóst að setja verður það lágmarksviðmið að meiri hluti þátttakenda synji þeim samþykkis. Þá er umhugsunarefni hvort setja eigi það skilyrði að ákveðinn lágmarkshluti kosningabærra manna þurfi að synja lögunum samþykkis.
Einnig þarf að ákveða hvort einhver lög eigi að vera undanþegin málskotsréttinum vegna eðlis þeirra, en í því sambandi koma upp í hugann fjár- og fjáraukalög, lög um skattamálefni og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum Íslands. Þá væri æskilegt að þingsályktanir sem fela í sér mikilvæga stefnumörkun gætu einnig orðið andlag þjóðaratkvæðagreiðslu, svo sem rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, og hið sama á við um ályktanir Alþingis er lúta að samþykki þjóðréttarsamninga.
Það hefur ekki reynst neitt áhlaupaverk að koma fram heildarendurskoðun á íslensku stjórnarskránni. Það væri því e.t.v. líklegra til árangurs að áfangaskipta slíku verkefni. Ekki væri úr vegi að hefja slíka vinnu á breytingum sem lúta að því að festa enn frekar í sessi lýðræðislega aðkomu almennings að lagasetningu. Með slíkum breytingum væru leikreglurnar gerðar skýrar og tryggt að lög öðlist ekki gildi sem eru andstæð vilja meiri hluta almennings.
Höfundur er hæstaréttarlögmaður, sat í stjórnarskrárnefnd 2013-2017.