Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Þótt rekstrarniðurstaða A- og B-hluta ársreikninga Reykjavíkurborgar fyrir árin 2023 til 2025 stefni í að vera jákvæð fyrir tímabilið er útlit fyrir að rekstrarniðurstaða A-hlutans verði neikvæð á þessu ári sem nemur ríflega 3,1 milljarði króna. Þetta kemur fram í bréfi eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, EFS, til Reykjavíkurborgar.
EFS hefur það hlutverk með höndum að fylgjast með fjármálum sveitarfélaga, þ.m.t. reikningsskilum og fjárhagsáætlunum, og bera saman við lögbundnar viðmiðanir. Bent er á að enda þótt sveitarstjórnum sé heimilt að víkja frá skilyrðum um jafnvægis- og skuldareglu út yfirstandandi ár, þá þurfi að uppfylla skilyrði þar um árið 2026.
Er borgarstjórn Reykjavíkur í bréfinu hvött til þess að leita leiða til að uppfylla skilyrði jafnvægisreglu árið 2026, þegar fjármálareglur taki gildi á nýjan leik.
Í umsögn sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar sem lögð var fram í borgarráði í sl. viku er vakin athygli á því að í þeim útreikningum sem EFS byggir á rekstrarniðurstöðu ársins 2023, útkomuspá vegna ársins 2024 og fjárhagsáætlun 2025, sé tekið tillit til rekstrarniðurstöðu samkvæmt ársreikningi 2024. Þá sé þriggja ára rekstrarniðurstaða Reykjavíkurborgar jákvæð bæði fyrir A-hluta og A- og B-hluta.
Segir þar að fjármála- og áhættustýringarsvið hafi rýnt bréf EFS og taki undir ábendingu um að mikilvægt sé að fjárhagsáætlanir uppfylli bæði jafnvægisviðmið A- og B-hluta og rekstrarjöfnuð A-hluta. Þó áréttar sviðið að lágmarksviðmið skv. sveitarstjórnarlögum gildi fyrir samstæðu sveitarfélaga, þ.e. A- og B-hluta. Ekki sé að finna í sveitarstjórnarlögum sambærileg viðmið fyrir rekstur A-hluta eingöngu.