Gróðureldar Útköllum vegna gróðurelda hefur fækkað að mun.
Gróðureldar Útköllum vegna gróðurelda hefur fækkað að mun. — Morgunblaðið/Eyþór
Slökkviliðin í landinu sinntu 21 útkalli á öðrum fjórðungi þessa árs, þar sem manneskja var í neyð, en alls brugðust slökkviliðin við 634 útköllum á tímabilinu. Þetta kemur fram í virkulegu yfirliti frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, sem vann…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Slökkviliðin í landinu sinntu 21 útkalli á öðrum fjórðungi þessa árs, þar sem manneskja var í neyð, en alls brugðust slökkviliðin við 634 útköllum á tímabilinu. Þetta kemur fram í virkulegu yfirliti frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, sem vann téðar tölfræðiupplýsingar úr útkallsskýrslugrunni slökkviliðanna.

Á meðal verkefna sem rötuðu til slökkviliðanna á ársfjórðungnum var 61 útkall vegna umferðarslysa og 17 útköll vegna viðvörunarkerfa, þar sem þó var engan eld að finna. Þá voru útköll vegna gróðurelda 38 talsins á tímabilinu.

Fram kemur að gróðureldum hafi fækkað um rúmlega helming á ársfjórðungnum frá sama tímabili í fyrra. Segir HMS að það veki von um að minna verði um gróðurelda í sumar en áður, en mikilvægt sé að auka forvarnir og fræðslu til þess að draga úr hættu á slíkum eldsvoðum.

Stofnunin hefur gefið út nýja kennslubók um gróðurelda sem aðgengileg er á vefnum. Er bókin ætluð slökkviliðum landsins sem og öllum þeim sem koma að forvörnum, skipulagi eða viðbrögðum vegna gróðurelda og kveðst vonast til bókin komi að góðum notum fyrir slökkviliðsmenn sem og aðra þá sem koma að slíkum viðfangsefnum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson