Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Veitingamenn við Austurvöll eru langþreyttir á ónæði sem menn í annarlegu ástandi valda í návígi við fjölda gesta sem koma til að fá sér hressingu í útiaðstöðu veitingastaðanna á daginn. Vandinn sé meiri en svo að ógæfumenn sötri áfengi í rólegheitum því að ólæti við styttuna af Jóni Sigurðssyni séu algeng þegar vel viðrar.
„Ég og kærastan mín fáum okkur stundum bjórglas við Austurvöll en ég myndi ekki vilja að dóttir mín væri að leika sér þarna á svæðinu,“ segir reyndur veitingamaður sem starfar á einum þessara skemmtistaða við Austurvöll. Hann segir það vitaskuld vera bagalegt fyrir gesti staðarins þegar menn eru í annarlegu ástandi steinsnar frá. Því fylgi óheppileg hegðun í ýmsum birtingarmyndum. „Ég hef oftar en einu sinni séð menn vippa limnum út og létta á sér fyrir framan fólk. Þú getur ímyndað þér hversu huggulegt það er fyrir gestina.“
Af og til brjótast út slagsmál og þykir viðmælendum blaðsins lögreglan vera heldur sein til þegar óskað er eftir aðstoð. „En ég er ekki að halda því fram að það sé áhugaleysi hjá þeim. Líklega snýst það frekar um manneklu hjá lögreglunni og það hvernig hún er fjármögnuð.“
Lausn á vandanum er ekki í sjónmáli. „Þetta hefur verið svona í meira en 20 ár. Það var svipað ástand á Hlemmi og um tíma á Lækjartorgi. Nú er þetta á Austurvelli. Kannski spilar inn í að þar eru bekkir þar sem hægt er að sitja. Einhverjir vilja meina að það skipti máli. Nú eru þarna margir af erlendum uppruna en áður voru þetta aðallega Íslendingar,“ segir hann og bendir á að málið sé flókið þegar horft er á stóru myndina en einhverjir þessara einstaklinga séu líklega heimilislausir.
Annar veitingamaður við Austurvöll segist fá þau svör frá lögreglunni að hún geti lítið gert annað en að biðja fólk um að haga sér betur, nema þegar alvarleg atvik eiga sér stað eins og minnst er á í greininni á forsíðunni.
„Austurvöllur er merkilegur staður fyrir okkur Íslendinga enda staðsettur beint fyrir framan Alþingishúsið. Mín skoðun er sú að þessi hegðun eigi ekki að líðast fyrir framan Alþingi þótt ég hafi skilning á því að einhvers staðar þurfi þessir menn að vera. Þeir drekka sig blindfulla, pissa í runnana og slást hver við annan.“
Þessi sami veitingamaður segir sína gesti hafa orðið fyrir áreiti vegna þessara manna en einnig starfsfólkið. „Einn þeirra hafði fengið sér sæti í útiaðstöðunni hjá okkur og vildi fá að sitja þar í friði að drekka eigið áfengi sem hann hafði tekið með sér. Þegar ég talaði við hann og tjáði honum að það væri ekki í boði þá fékk ég vínið úr flöskunni yfir mig,“ segir hann og hann hafi þá komið sér inn á veitingastaðinn til að gefa viðkomandi ekki færi á að ráðast á sig eins og hann virtist líklegur til.