Hitabylgja Landsmenn hafa notið góðviðrisins undanfarna daga.
Hitabylgja Landsmenn hafa notið góðviðrisins undanfarna daga. — Morgunblaðið/Eyþór
Hitabylgjan sem gengur nú yfir landið hélt áfram að leika við landsmenn í gær. Víða fór hiti yfir 20 gráður og má búast við svipuðum hitatölum út vikuna á Norður- og Austurlandi. Í gær mældist mestur hiti á veðurstöð Veðurstofu Íslands við Kröflu þar sem hiti fór upp í 26,4 gráður

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Hitabylgjan sem gengur nú yfir landið hélt áfram að leika við landsmenn í gær. Víða fór hiti yfir 20 gráður og má búast við svipuðum hitatölum út vikuna á Norður- og Austurlandi.

Í gær mældist mestur hiti á veðurstöð Veðurstofu Íslands við Kröflu þar sem hiti fór upp í 26,4 gráður. Er það jafnframt nýtt staðarmet veðurstöðvarinnar.

Víða um landið fór hiti yfir 25 gráður, t.a.m. á Grímsstöðum á Fjöllum þar sem hiti mældist 26 gráður í gær.

Þrátt fyrir töluverðan hita um allt land féllu ekki jafn mörg dægurhitamet í gær og á mánudag þegar að minnsta kosti fimm dægurhitamet féllu. Komið hefur í ljós að mesti munurinn á nýju og fyrra meti var 9,4 gráður. Það var í Hjarðarlandi í Biskupstungum þar sem munurinn á fyrra dægurhitameti og því nýja, 14. júlí, var svo mikill. Fyrra metið var 20,1 gráða en á mánudag mældist hitinn 29,5 gráður.

Fjögur önnur dægurhitamet féllu síðastliðinn mánudag þar sem munurinn á fyrra og nýju meti var yfir 7,9 gráður. Sjaldséð er að munurinn sé svona mikill.

Í Árnesi mældust 28,7 gráður en fyrra dagsmet var 19,7 gráður. Á Hellu var munurinn á fyrra og nýju meti 8,7 gráður en hiti fór upp í 27,7 gráður í gær.

Við Ölkelduháls á Hengilssvæðinu mældist hiti 25,5 gráður en áður hafði hiti mælst mestur þennan dag 17,4 gráður. Þá féll einnig dægurhitamet við Gullfoss á mánudag þegar hiti mældist 27,8 gráður og trompaði fyrra met um 8 gráður.

Höf.: Birta Hannesdóttir