Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Við fögnum þessu. Það munar um að borga 30 þúsund á ári í staðinn fyrir 500 þúsund,“ segir Gunnar Halldór Jónasson, kaupmaður í versluninni Kjötborg við Ásvallagötu í Reykjavík.
Reykjavíkurborg hefur kynnt áform um að taka upp bílastæðakort fyrir rekstraraðila í Reykjavík og gefst tækifæri til að koma með ábendingar um þessi áform á vef borgarinnar fram til 15. ágúst.
Tvö ár verða í haust liðin frá því að bílastæðagjöld voru hækkuð og gjaldsvæði stækkað miðsvæðis í Reykjavík. Þessar breytingar komu illa við ýmsa rekstraraðila, til að mynda í Vesturbæ Reykjavíkur. Íbúum á þessum nýju gjaldsvæðum stóð til boða að fá íbúakort til að leggja bílum sínum en verslunareigendur og aðrir rekstraraðilar þurftu að gjöra svo vel að borga í stöðumæli. Og hafa þurft að gera það nú í tvö ár með tilheyrandi kostnaði. Athugasemdir sem rekstraraðilar gerðu við þessar breytingar breyttu litlu. Dagur B. Eggertsson þáverandi borgarstjóri fundaði með Gunnari í Kjötborg en fundurinn skilaði engu.
„Ég var bjartsýnn á að þetta myndi gerast en var þó ekki búinn að tala við þessa nýju konu. Það gekk ekkert að tala við Dag, hann og Dóra Björt lofuðu bara einhverju. Síðan er búið að skipta tvisvar um borgarstjóra,“ segir Gunnar sem hafði ekki heyrt af þessum áformum þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær.
Kaupmaðurinn segir að erfitt hafi verið að starfa í þessu umhverfi síðustu tvö ár. Margir hafi komið að máli við þá bræður í búðinni og sagt að þetta væri ósanngjarnt. „Svo höfum við verið heppnir einn og einn dag þegar fólk hefur lánað okkur innkeyrslustæðin sín.“
Ekki kemur fram í drögum að þessum nýju reglum hvað bílastæðakort muni kosta rekstraraðila. Íbúakort kosta 1.450 krónur á mánuði fyrir rafmagnsbíla en 2.900 fyrir bensínbíla. Þá voru nýverið kynnt áform um að svokallað Íbúakort 2 verði tekið upp fyrir þá sem eru með fleiri en einn bíl á heimilinu. Það mun kosta 20.000 krónur á mánuði.
Bílastæðakort fyrir rekstraraðila eru hugsuð sem tilraunaverkefni til loka árs 2027 en fyrir þann tíma verði tekin ákvörðun um hvort þetta fyrirkomulag verði til frambúðar.