Sjóflutningar Ms. Selfoss hefur verið notaður í strandferðum Eimskips. Nú leggjast þær af, jafnhliða því sem verksmiðju PCC á Húsavík er lokað.
Sjóflutningar Ms. Selfoss hefur verið notaður í strandferðum Eimskips. Nú leggjast þær af, jafnhliða því sem verksmiðju PCC á Húsavík er lokað. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægt er að bregðast við aðstæðum nú þegar strandflutningar með skipum við landið eru að leggjast af, segir Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í í vikunni hefur Eimskip nú selt ms

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilvægt er að bregðast við aðstæðum nú þegar strandflutningar með skipum við landið eru að leggjast af, segir Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í í vikunni hefur Eimskip nú selt ms. Lagarfoss úr skipastól sínum og hyggst hætta innan tíðar reglubundnum siglingum til og frá Reykjavík til hafna á Vestjörðum og Norðurlandi. Í þessu sambandi er lokun verksmiðju PCC á Bakka við Húsavík afgerandi áhrifaþáttur.

Minna álag á vegi og draga úr umhverfisáhrifum

Á næstunni skipar ráðherra starfshóp sem fara á yfir rekstrarumhverfi strandsiglinga, með tilliti til hagkvæmni þeirra og forsendna í rekstri. Magnús Jóhannesson fyrrverandi ráðuneytisstjóri verður formaður þessa hóps. Sá mun, að sögn ráðherrans, kalla til sín þá sem hagsmuna eiga að gæta og fá úr þeirra ranni upplýsingar og sjónarmið ýmis. Þar á meðal verður leitað til skipafélaganna. Út úr því starfi verða svo mótaðar tillögur til aðgerða.

„Hlutverk starfshópsins er að leggja fram aðgerðaáætlun um leiðir til að efla strandflutninga hér á landi. Hugsunin þarna er hvernig megi auka vöruflutninga á sjó í stað flutninga á þjóðvegum. Þarna er horft til þess meðal annars að minnka álag á vegi landsins og draga úr umhverfisáhrifum,“ segir Eyjólfur ráðherra.

Starfshópurinn á að skila aðgerðaáætlun ekki síðar en 1. desember á þessu ári. Sá mun vinna með skýrslu sem Vegagerðin vann fyrir ráðuneytið um strandflutninga við Ísland og greina hvernig unnt sé að efla vöruflutninga á sjó. Tillögur hópsins verða lagðar til grundvallar við frekari stefnumótun í málaflokknum, þar með talið í samgönguáætlun en þar eru lagðar mikilvægar línur í allra helstu innviðamálum þjóðfélagsins.

Hindrunum verði rutt úr vegi

Minna má á að þegar frumvarp til laga um kílómetragjald var til umfjöllunar á Alþingi fyrir nokkrum mánuðum minnti Eimskip, í umsögn til Alþingis, á mikilvægi hófsemdar í skattheimtu, það er í kílómetra- og kolefnisgjöldum. Hér á landi væru gerðar ríkar kröfur um skamman afhendingartíma alls farms sem þá fari landleiðina. Hafa strandflutningar þar verið mótsvar; með því móti hefur farið frakt sem má vera ögn seinni að berast en sé flutt um landleiðir.

„Ég tel mikilvægt að ryðja öllum hindrunum fyrir strandsiglingum um úr vegi, hvort sem þær eru lagalegar eða af öðrum toga. Að þessu mun ég beita mér af fullum þunga í störfum mínum,“ segir Eyjólfur Ármannsson og heldur áfram:

„Núna þarf að fara yfir öll sjónarmið og skapa réttu skilyrðin. Ég myndi vilja sjá stöðuna þannig að við yrðum aftur með reglulegar strandsiglingar umhverfis landið, líkt og var á árum áður. Ísland er eyja og brýnt að við nýtum hafið í kringum landið sem þjóðbraut fyrir flutninga. Slíkt hefði alveg tvímælalaust jákvæð áhrif á vegakerfið, sem er undir miklu álagi vegna þungaflutninga til að mynda stórra bíla sem sumir eru með stóra aftanívagna. Slíkir flutningar með bílum valda mun meira sliti á þjóðvegum en önnur umferð og því eru strandsiglingarnar afar mikilvæg mótvægisaðgerð.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson