Íbúar við Árskóga í Breiðholti mótmæltu í gær framkvæmdum við heimili sín.
Framkvæmdirnar snúa að göngustíg sem verið er að leggja upp við heimili íbúanna og mun ná frá Árskógum 1 og alveg að græna vöruhúsinu við Álfabakka 2.
„Við endann á göngustígnum kemur steyptur veggur sem nær upp í eins og hálfs metra hæð. Það verður bara múrveggur sem fólkið í endaíbúðunum horfir á og þar með er þessi íbúð orðin kjallaraíbúð, sem er náttúrlega ekki boðlegt einum eða neinum,“ segir Ingi Þór Hafsteinsson, formaður húsfélags Árskóga 1-3, í samtali við Morgunblaðið og bætir við að íbúar séu svefnvana af áhyggjum vegna framkvæmdanna.
Hann segir samskipti við Reykjavíkurborg um framkvæmdirnar hafa gengið „ömurlega“. Borgin eigi að fara í framkvæmdir í samráði við íbúa en að slíkt hafi ekki verið gert í þessu tilfelli.
Þá segir formaðurinn að mótmælin verði ekki þau síðustu.
„Við munum mótmæla hérna þangað til við vinnum.“