Tölfræði Karlar voru að meðaltali með hærri tekjur en konur.
Tölfræði Karlar voru að meðaltali með hærri tekjur en konur. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru 831 þúsund krónur á mánuði að meðaltali árið 2024. Meðaleinstaklingur er því með heildartekjur upp á tæpar 10 milljónir á ári, sem er 6,7% hækkun frá 2023, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands

Kári Snorrason

ks@mbl.is

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru 831 þúsund krónur á mánuði að meðaltali árið 2024. Meðaleinstaklingur er því með heildartekjur upp á tæpar 10 milljónir á ári, sem er 6,7% hækkun frá 2023, að því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Ef horft er til verðlagsleiðréttingar er raunhækkunin um 0,8%. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna. Þá var meðaltal atvinnutekna um 6,8 milljónir, fjármagnstekna 1,2 milljónir króna og annarra tekna um 2 milljónir.

Miðgildi heildartekna var um 8,3 milljónir, sem samsvarar því að helmingur einstaklinga hafi verið með heildartekjur undir 691 þúsund krónum á mánuði. Karlar voru að meðaltali með hærri tekjur en konur, en heildartekjur karla námu 912 þúsund krónum á mánuði að meðaltali. Þá munar rúmum 160.000 krónum á kynjum, þar sem meðaltalið var 750 þúsund krónur á mánuði hjá konum.

Konur eru þó greinilega með fleiri tekjulindir, þar sem þær eru að meðaltali hærri undir flokknum aðrar tekjur en karlar fram eftir aldri. Meðaltal annarra tekna hjá konum á aldursbilinu 25-54 ára er um 113 þúsund krónur á mánuði, en aðeins 71 þúsund hjá körlum.

Höf.: Kári Snorrason