Uppsagnir Sex flugumferðarstjórum hefur nú verið verið sagt upp.
Uppsagnir Sex flugumferðarstjórum hefur nú verið verið sagt upp. — Morgunblaðið/Ernir Eyjólfsson
Einum flugumferðarstjóra til viðbótar hefur verið sagt upp hjá Isavia ANS vegna brota á reglum um skráningu á tímum um setu í vinnustöðu. Greint var frá uppsögnum fimm flugumferðarstjóra í maí vegna sömu brota

Egill Aaron Ægisson

egillaaron@mbl.is

Einum flugumferðarstjóra til viðbótar hefur verið sagt upp hjá Isavia ANS vegna brota á reglum um skráningu á tímum um setu í vinnustöðu.

Greint var frá uppsögnum fimm flugumferðarstjóra í maí vegna sömu brota. Kom þá í ljós að þeir voru með skráða tíma í vinnustöðu sem aðrir höfðu unnið.

Af því leiddi að flugumferðarstjórarnir höfðu í raun ekki uppfyllt skilyrði um lágmarkstímafjölda um setu í vinnustöðu og voru því ekki með gild leyfi til að sinna flugumferðarstjórn.

Fimm öðrum var veitt áminning fyrir að hafa tekið þátt í brotunum að einhverju leyti.

Í rannsókn hjá Samgöngustofu

Arnar Hjálmsson, formaður félags flugumferðarstjóra, staðfestir uppsögn sjötta flugumferðarstjórans í samtali við Morgunblaðið.

Var það þá líka fyrir brot á reglum um skráningu tíma?

„Hann er sakaður um það, já. Þetta er af sama meiði og hitt,“ segir Arnar.

Greint var frá því í maí að eftir ítarlega skoðun Isavia ANS á málinu væri ljóst að brotin næðu eingöngu til afmarkaðs hóps flugumferðarstjóra en hjá fyrirtækinu starfa hátt í 300 manns.

Þá hefur Samgöngustofa verið með mál flugumferðarstjóranna til rannsóknar.

Talið var að tíðinda væri þaðan að vænta í byrjun síðasta mánaðar en að sögn Arnars er þeirri rannsókn ekki lokið.

Höf.: Egill Aaron Ægisson