Tálknafjörður Starfsmenn Arnardals sf. sinntu vegaframkvæmdum í sumarblíðunni á Vestfjörðum í gær. Arnardalur er fjölskyldufyrirtæki.
Tálknafjörður Starfsmenn Arnardals sf. sinntu vegaframkvæmdum í sumarblíðunni á Vestfjörðum í gær. Arnardalur er fjölskyldufyrirtæki. — Morgunblaðið/Guðlaugur J. Albertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef gaman af þessari vinnu, annars væri ég ekki að þessu,“ segir Sverrir Þórólfsson, stofnandi fjölskyldufyrirtækisins Arnardals sf. Sverrir á 75 ára afmæli í dag en 48 ár eru síðan hann stofnaði fyrirtækið sem hann segir að sé líklega elsta verktakafyrirtæki á landinu

Flóki Larsen

floki@mbl.is

„Ég hef gaman af þessari vinnu, annars væri ég ekki að þessu,“ segir Sverrir Þórólfsson, stofnandi fjölskyldufyrirtækisins Arnardals sf.

Sverrir á 75 ára afmæli í dag en 48 ár eru síðan hann stofnaði fyrirtækið sem hann segir að sé líklega elsta verktakafyrirtæki á landinu.

Verktakinn var staddur í Tálknafirði þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans. Þar voru Sverrir og fleiri liðsmenn fjölskyldufyrirtækisins að störfum við vegaframkvæmdir. Hjá Sverri vinna synir hans þrír og tvö barnabörn.

Framkvæmdir um land allt

„Þetta er bara eitt af því sem er verið að eyða peningum í hérna á Vestfjörðum,“ segir Sverrir um framkvæmdina. Hún snýr að því að bæta veginn á um tveggja kílómetra kafla. Sverrir segir veginn hafa verið erfiðan, klæðningin á honum hafi áður mislukkast í tvígang og því hafi hann verið slitinn og holóttur.

„Við höfum því verið að hjólfarafylla, laga axlir og í raun og veru rétta veginn af áður en klæðningarslitlag kemur væntanlega yfir seinna,“ segir Sverrir.

Hann lýsir verkinu sem fyrirbyggjandi viðhaldi. „Það er eins og þegar þú lætur gera við tönn eftir að komið er í hana lítið gat, í stað þess að bíða eftir því að það verði stórt og þá þurfi að rífa tönnina úr. Það er miklu verra og dýrara,“ segir Sverrir.

Sverrir játar að nóg sé að gera hjá Arnardal og segir fyrirtækið hafa sinnt ýmsum verkefnum í flestum landshlutum undanfarið.

„Við erum búnir að vera á fullu í sumar, byrjuðum á Skeiðarársandi í vor í maí og fórum norður í Þingeyjarsýslu. Þannig að við fórum allan hringinn, nema ekki á Austurland,“ segir Sverrir.

Hann segir fyrirtækið hafa sinnt ýmsu í gegnum tíðina auk vegaframkvæmda, eins og virkjunarframkvæmdum, gatnagerð, hitaveitu og byggingu laxeldisstöðva.

„Svo höfum við sinnt þessum lið starfseminnar, vegaframkvæmdum, í 30 ár.“

Hann segir mörg verkefni liggja fyrir í sumar en ríkisstjórnin ákvað nýlega að veita þremur milljörðum aukalega í málaflokkinn.

„Það veitir ekki af því,“ segir Sverrir en hluti af starfsemi Arnardals er að laga vegi þar sem bikblæðingar hafa orðið en mikið hefur verið rætt um fyrirbærið undanfarið sem hefur verið algengt víða á þjóðvegunum.

Umhverfisvænni lausn

Arnardalur hefur sérhæft sig í notkun svokallaðs kaldblandaðs malbiks en Sverrir segir kolefnisspor þess vera um 20% af því sem önnur slitlög hafi í för með sér. Malbikið sé sett niður kalt og steinefnið ekki hitað. Efnahvörf valdi því síðan að malbikið harðnar.

„Þetta er notað um allan heim í allt frá minni vegum í stórar hraðbrautir,“ segir Sverrir.

Spurður um hvort hann ætli að halda áfram að vinna segir Sverrir að svo verði í bili. „Á meðan heilsan leyfir og maður hefur áhuga og vill gera eitthvað gott þá verður maður eitthvað áfram í þessu.“

Höf.: Flóki Larsen