Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Veitingamenn við Austurvöll eru langþreyttir á ónæði sem menn í annarlegu ástandi valda en þeir halda gjarnan til við bekkina á Austurvelli, nálægt styttunni af Jóni Sigurðssyni. Á góðviðrisdögum hópast borgarbúar á svæðið og nýta tækifærið til að sitja úti í góða veðrinu eins og þekkt er. Veitingastaðirnir í kringum Austurvöll bjóða flestir upp á slíka aðstöðu.
Nokkrir staðir eru til að mynda í röð gegnt Alþingishúsinu og þar er mikill fjöldi fólks þegar sólin lætur sjá sig. Selja þeir staðir ekki einungis drykki heldur einnig mat og stundum eru fjölskyldur að snæða saman utandyra skammt þar frá sem menn eru með ólæti eða í handalögmálum. Veitingamaður sem Morgunblaðið ræddi við segir að fyrir rúmri viku hafi menn í annarlegu ástandi slegist um miðjan dag á laugardegi fyrir framan gesti veitingastaðanna sem voru á öllum aldri. Segir hann þetta sömu mennina og séu þaulsætnir á Austurvelli þegar veðrið er gott.
Reglulega kastast í kekki milli þessara manna og hann nefnir sem dæmi að óskað hafi verið eftir aðstoð frá lögreglu á föstudeginum, laugardeginum og sunnudeginum. Mest út af sömu einstaklingum. Lögreglan kom á laugardeginum og reyndi að ræða við mennina þar sem fljöldi fólks hafði séð þá í handalögmálum og deilum. Þegar lögreglan kom öðru sinni varð hún vitni að slagsmálunum og þá var einn handtekinn. Sá hafði sparkað í höfuð kunningja síns. „Það liggur við að staðirnir þurfi að vera með öryggisgæslu yfir hábjartan daginn með tilheyrandi kostnaði,“ og segir að til tals hafi komið hjá veitingamönnum að funda vegna ástandsins. » 4