Diljá Valdimarsdóttir
dilja@mbl.is
Þúsundir Afgana sem unnu með bresku ríkisstjórninni og fjölskyldur þeirra voru fluttar leynilega til Bretlands eftir að gagnaleki árið 2022 stofnaði lífi þeirra í hættu. John Healey varnarmálaráðherra Bretlands upplýsti breska þingið um málið í gær.
Í febrúar árið 2022 var skjali lekið sem innihélt nöfn og upplýsingar um næstum 25.000 Afgana sem höfðu beðið um flutning til Bretlands eftir að talibanar náðu völdum í Afganistan.
Breskur embættismaður í varnarmálaráðuneytinu lak skjalinu óvart, aðeins sex mánuðum eftir að talibanar náðu Kabúl á sitt vald, sagði Healey.
Lekann má rekja til tölvupóstasamskipta en skjalið var sent í tölvupósti utan viðurkenndra stjórnkerfa ríkisins. Healey sagði þetta hafa verið alvarleg mistök af hálfu ráðuneytisins og bætti við að líf kynnu að hafa verið í húfi. Lögregla í Lundúnum ákvað þó að lögreglurannsókn væri ekki nauðsynleg.
Skjalið innihélt nöfn fólks sem hafði sótt um flutning og aðstoð samkvæmt sérstakri áætlun, Arap, sem breska ríkisstjórnin kom á til að vinna hratt í umsóknum fólks, sem óttaðist hefndaraðgerðir talibana, og flytja það til Bretlands.
Healey sagði að lekinn væri „einn af mörgum gagnalekum“ tengdum brottflutningi frá Afganistan á þessu tímabili. Skjalið hefði innihaldið nöfn háttsettra hermanna, embættismanna og þingmanna.
Varnarmálaráðuneyti Bretlands hefur ekki viljað gefa upp hversu margir kunni að hafa verið handteknir eða drepnir vegna gagnalekans.
Upplýsingar um þennan umfangsmikla gagnaleka, viðbrögðin við honum og þann fjölda Afgana sem fengu rétt til að búa í Bretlandi voru fyrst gerðar opinberar í gær eftir að dómari við Hæstarétt úrskurðaði að aflétta ætti þagnarskyldu í málinu. Þá vissi fólk sem nefnt var í skjalinu ekki af lekanum fyrr en í gær. Healy var upplýstur um áætlunina í desember 2023, en íhaldsstjórnin bað dómstóla um að setja svokallað „ofurlögbann“.
Lögbannið, sem var í gildi í rúm tvö ár, fól í sér að fjölmiðlar mættu ekki greina frá tilvist lekans, umfangi eða þeim afleiðingum sem hann hefði í för með sér. Var þetta gagnrýnt harðlega af þingmönnum og mannréttindasamtökum.
Fyrri ríkisstjórn fékk vitneskju um lekann í ágúst 2023 í kjölfar Facebook-færslu nafnlauss manns sem kvaðst hafa afrit af umræddu skjali. Talið er að maðurinn sé Afgani sem hafi fengið synjun um hæli í Bretlandi. Eftir að ríkisstjórninni varð kunnugt um lekann kom hún á fót nýju búferlaflutningakerfi níu mánuðum síðar. Það leiddi til þess að um 900 Afganar og 3.600 fjölskyldumeðlimir þeirra hafa nú verið fluttir til Bretlands eða eru á leiðinni þangað en um 36.000 Afganar hafa fengið dvalarleyfi í Bretlandi. Áætlunin er kölluð „afganska viðbragðsleiðin“ og kostar breska ríkið um sjö milljarða punda eða sem nemur um 1.140 milljörðum íslenskra króna.
Þegar Verkamannaflokkurinn tók við völdum í júlí 2024 var áætlunin enn í fullum gangi en Healey sagði að sér hefði þótt óþægilegt að mega ekki greina frá áætluninni á þingi. Lögreglan í London fékk jafnframt upplýsingar um leka skjalsins í ágúst árið 2023 en taldi sakamálarannsókn ekki vera nauðsynlega.
„Ráðherrar ákváðu að segja þingmönnum ekki frá gagnalekanum, þar sem víðtæk umfjöllun myndi auka hættuna á að talibanar kæmust yfir gögnin,“ sagði Healey. Áætluninni er nú lokið en samningar um búferlaflutninga verða einnig virtir áfram. Healy baðst afsökunar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á gagnalekanum.