Taflfélag Reykjavíkur heldur skákmót í Viðeyjarstofu í samstarfi við Eldingu og Borgarsögusafn nú á sunnudaginn, 20. júlí. Mótið er opið öllum og þátttaka er ókeypis en greiða þarf í ferjuna sem leggur af stað frá Skarfabakka við Sundahöfn kl. 12.15. Mótið hefst kl. 13.
Tefldar verða níu umferðir með tímamörkunum 3+2 (3 mínútur á mann og 2 sekúndur á leik). Teflt verður á efri hæð Viðeyjarstofu. Hámarksfjöldi keppenda er 50 manns.
Þegar skák sleppir er margt áhugavert að sjá og skoða í Viðey, en þangað og þaðan eru siglingar allan daginn skv. áætlun sem er á vefnum elding.is. Þar segir enn fremur: „Viðey er einstakur staður sem sameinar sögu, list og náttúru. Það tekur aðeins örfáar mínútur að sigla yfir í friðsældina og óspillta náttúruna sem Viðey er vel þekkt fyrir. Mikið fuglalíf er í eyjunni, sem og glæsileg nútíma listaverk sem setja svip sinn á eyjuna. Heimsþekktir listamenn hafa valið Viðey sem ákjósanlegan stað fyrir staðsetningu listaverka sinna. Verk Richard Serra og Yoko Ono eru bæði ómetanleg djásn og auka við þá ánægju sem gestir hafa af heimsókn.“