Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Aflaheimildir í þorski voru fullnýttar í gær og hefur Fiskistofa því stöðvað strandveiðar. Atvinnuvegaráðherra hefur ekki bætt við aflaheimildum og því verður ekki róið út til veiða í dag.
Í samtali við Morgunblaðið skömmu eftir að fréttirnar bárust í gær lýsti Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, miklum vonbrigðum. „Þetta kemur mér mjög á óvart,“ segir Örn sem hafði verið vongóður um að ráðherra myndi bæta í pottinn. Spurður hvort hann telji að ráðuneytið hafi ekki brugðist nægilega hratt við ákalli um að bæta við aflaheimildum segir hann nei.
Hann segir það skilja eftir sig gat á þessu fiskveiðiári að ekki skuli vera veitt það sem gert var ráð fyrir. „Þá eru strandveiðarnar og línuívilnun í raun og veru einu tækifærin sem ráðherrann hefur til að vega þetta upp og fullnýta heimildir,“ segir Örn.
Stjórnvöld hafa lýst þeirri ætlun sinni að heimila strandveiðar í 48 daga í sumar og þegar í það stefndi að 10 þúsund tonna aflaheimild í þorski yrði uppurin nýverið bætti Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra 1.032 tonnum af þorski í pottinn. Nú er kvótinn uppurinn. Strandveiðifrumvarpið dagaði uppi á Alþingi, svo sem kunnugt er.
Ekki náðist í Hönnu Katrínu í gær, en ætlunin var að spyrjast fyrir um hvað hún hygðist taka til bragðs þegar þorskpotturinn tæmdist.
Örn segir að vissulega hafi staða mála þrengst þegar strandveiðifrumvarpið náði ekki fram að ganga en ekki hvarfli annað að sér en að bætt verði við aflaheimildum sem tryggi veiðar til ágústloka.